Skoðun

Tær snilld - VG snúið í 180 gráður

Jón Bjarni Jónsson skrifar

Á næstu 3 dögum gætu orðið merk tímamót í íslenskri pólitík, en þá mun byggingarverktakinn Spöng ehf, ná að snúa stórum hluta þingmanna Vinstri Grænna í 180°. Að sögn Gróu á Leiti, þá er talið að þessi snúningur muni hafa mjög jákvæð áhrif á rikisstjórnarsamstarfið og alla ákvörðunartöku þar. Að ekki sé talað um stjórnarandstöðuna, en að sögn, er hún hin kátasta með umskiptin, en reyndar einnig pínulítið svekkt yfir því að hafa ekki hugkvæmst sjálfri, þessi gjörningur.

Þessi snúningur ætti einnig að vera kærkomin tilbreyting fyrir stjórnmálaskýrendur, sem hafa einungis getað fjallað um að þingmenn séu að færast til vinstri, hægri eða til miðju, en aldrei í hálfhring eins og nú verður raunin. Allavega verður áhugavert að fylgjast með afleiðingunum.

Búið er að vera töluvert aðlögunarferli að þessum viðsnúningi Vinstri Grænna, reyndar með mismikilli hrifningu sumra þeirra. Felst sú aðlögun í því, að þingmenn VG voru fluttir með skrifstofur sínar úr "Skúlahúsi" sem stendur við Vonarstræti í Reykjavík, í gömlu Morgunblaðshöllina, (menn verða varla hægrisinnaðri), og voru það mjög þung spor fyrir þingmenn VG, að vera settir þar inn, nánast í betrunarvist.

Eftir aðlögunarferlið stendur svo til að flytja þá aftur á sínar fyrri skrifstofur, í svonefndu Skúlahúsi, með þeirri breytingu þó, að í stað þess að geta gengið inn í húsið vinstra megin, verða þeir nú að ganga inn til hægri. Það verður nefnilega búið að flytja húsið í Kirkjustræti, og snúa því.

Lekið hefur út að aðilar innan VG séu alls ekki sáttir við þennan snúníng og séu að leita

logandi ljósi að stuðningi, til að hindra þennan gjörning. Bæði hefur sést til þeirra hjá forseta vorum og einnig á ýmsum skrifstofum innan stjórnkerfisins.

Forsetinn var, að sögn Gróu, allur af vilja gerður, og sá jafnvel fyrir sér

seinna meir að geta sett í sínar endurminningar "I..SAVE VG"

En mesti stuðningurinn úr stjórnkerfinu kom, eins og vænta mátti, frá Barnaverndarstofu. Því eins og alþjóð veit þá hafa verið mjög sterk tengsl á milli hennar og VG.

Bæði er að barnaverndarstofa hefur aldrei staðið uppi í hárinu á formanni VG,(enda lítið að halda þar í) og einnig mun Stjóri Barnaverndarstofu telja að málið falli undir sína stofnun, þar sem þingmenn VG hafi í gegnum tíðina passað vel upp á að varðveita barnið í sjálfum sér, og því sé réttlætanlegt að Barnaverndarstofa gæti þeirra hagsmuna. Það er jú ekkert um það í stjórnarskránni hvenær barndómi lýkur.

En samkvæmt óáreiðanlegum heimildum, er það ekki svo að neinn illvilji sé að baki þeirri ákvörðun að snúa VG. Heldur er það gert með góðum hug, að færa skrifstofur þeirra til Kirkjustrætis frá Vonarstræti, nánast fylgir kærleiki þessum flutningi.

Má því segja að Trú, Von og Kærleikur til handa VG, sé ástæða þess að þeim sé snúið, vonandi til betri vegar.

Með von um meiri trú, meiri von og meiri kærleika, hjá okkur öllum.






Skoðun

Sjá meira


×