Skoðun

Hundakúkur á Esjunni

Úrsúla Jünemann skrifar
Þegar veðrið er gott leggur fjöldi manna leið sína upp á Esju og er þá venjulega farin hefðbundin leið upp á Þverfellshorn eða eitthvað áleiðis í þá átt. Hundar eru skemmtilegir göngufélagar enda oft með miklu meiri hreyfiþörf heldur en menn. Það er því hið besta mál að taka þá með í fjallgöngu. Nú þurfa hundarnir af og til að gera stykkin sín og hafa hundaeigendur þess vegna yfirleitt plastpoka með sér til að hirða upp eftir ferfætlingana. Allt hið besta mál. Hundarnir kúka oft á leiðinni upp fjallið og er svona frekar leiðinlegt að bera kúkinn upp og niður. Fólkið skilur þess vegna kúkapokana eftir á vegakantinum til að taka þá með á leiðinni niður.

Allt gott um þetta, nema hvað? Ósköp er sumt fólk gleymið! Í dag, mánudaginn 19.7., fór ég upp á Esju, frekar snemma. Það var enginn búinn að skrifa sig í gestabókina uppi á Þverfellshorninu þann dag. Á undan mér var einungis einn hundur og fólkið sem átti hann fór að stóra steininum. En kúkapokarnir sem ég sá á leiðinni voru margfalt fleiri og sumir greinilega búnir að liggja þarna lengi. Þrem dögum áður var ég búin að labba svipaðar slóðir og það má segja að ég sá „marga góða kunningja“ við vegakantinn.

Nú spyr ég: Til hvers er fólkið að setja hundakúkinn snyrtilega í plastpoka þegar það tekur hann svo ekki með sér niður af fjallinu? Þá væri margfalt betra að moka hann undir stein (þó ekki of nálegt einhverjum læk), leyfa honum að breytast í lífrænan áburð sem kæmi kannski einhverjum gróðri að gagni. Hundakúkur í plasti er miklu lengur að eyðast og mun „skreyta“ leiðina upp á Esju í mörg ár.

Nema hundaeigendunum finnist þetta fallegt og þeir vilji setja sínum hvutta minnismerki. Þeir ættu þá að setja vel sýnilegan miða með kúkapokanum. Á honum gæti til dæmið staðið: „Á þessum fallega stað kúkaði Snati þann 18. júlí 2010“. Eða „Verðlaunatíkin mín hún Lubba hafði hér sérlega góðar hægðir“.

En ég var með poka á mér og tíndi upp gleymdu hundapokana á leiðinni niður. Það sem pirrar manninn á maður að reyna að breyta og bæta. Þegar ég var komin með 15 stykki hætti ég að telja.

Í lokin verð ég að segja að fyrir utan kúkapokana var sáralítið rusl á leiðinni. Heimurinn batnandi fer.



Skoðun

Sjá meira


×