Erlent

Vespurnar loksins heiðraðar

Óli Tynes skrifar
Vespurnar í Washington í gær.
Vespurnar í Washington í gær. Mynd/AP

Yfir 1100 konur voru í gær sæmdar Gullorðu bandaríska þingsins fyrir framlag sitt sem herflugmenn/konur í síðari heimsstyrjöldinni.

Talið er að um 300 þessara kvenna séu enn á lífi og 170 þeirra mættu í þinghúsið í gær til þess að taka við orðunni.

Þær tilheyrðu deild í flughernum sem hét Women Airforce Service Pilots. Skammstöfunin var WASP's eða Vespurnar.

Vespurnar flugu ekki í orrustum en þær reynsluflugu nýjum flugvélum jafnóðum og þær runnu af færibandinu. Auk þess flugu þær vélum til herstöðva þar sem átti að nota þær, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu.

Þetta voru bæði hraðskreiðustu orrustuflugvélar og stærstu sprengjuflugvélar og allt þar á milli. Þetta gerði kleift að senda fleiri karlmenn á vígvöllinn.

Flugherinn var mikið karlaveldi á stríðsárunum og margir voru ákaflega á móti Vespunum. Framkoman í þeirra garð var í samræmi við það.

Þótt þær bæru einkennisbúninga og byggju í herstöðvum nutu þær ekki sömu réttinda og karlmenn. Þær fengu til dæmis ekki greitt úr eftirlaunasjóði hermanna fyrr en 1977.

Þær urðu sjálfar að greiða fyrir flugnám sitt og eins fyrir fæði og húsnæði meðan þær gegndu „herþjónustu"

Þær þurftu jafnvel að safna sjálfar fé til þess að borga útfarir þeirra kvenna sem fórust með flugvélum sínum.

Það eina sem hélt þeim gangandi var þráin að þjóna þjóð sinni á ögurstundu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×