Innlent

Drukku ekki fyrr en Líndal hafði talað

Sigurður Líndal prófessor upplýsti upprennandi lögfræðinga í HR í vísindaferð á Þingvöllum í lok ágúst. Mynd/Steven Johnson
Sigurður Líndal prófessor upplýsti upprennandi lögfræðinga í HR í vísindaferð á Þingvöllum í lok ágúst. Mynd/Steven Johnson
Aldís Geirdal Sverrisdóttir, formaður Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík, segir að í árlegum ferðum Málfundafélags Lögréttu á Þingvöll sé góð hegðun í fyrirrúmi.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í síðustu viku voru fulltrúar Orators, félags laganema í Háskóla Íslands, kallaðir á teppið hjá formanni Þingvallanefndar og þjóðgarðsverði vegna ölvunar og „skrílsláta“ í Þingvallaferð 10. september síðastliðinn. Báðust Orator-menn afsökunar.

Sigurður Líndal lagaprófessor fór með Lögréttu á Þingvöll 27. ágúst síðastliðinn. Aldís segir ferðina hafa tekist með eindæmum vel – eins og jafnan fyrr.

„Í ferðum Lögréttu er lögð mikil áhersla á góða hegðun og áfengi var því ekki haft um hönd fyrr en eftir að framsögu Sigurðar og göngu um Þingvelli lauk. Síðan voru haldnir Lögréttuleikarnir og framsögumaður ársins krýndur en umfjöllunarefnið var vændi,“ segir Aldís.

„Sigurður þakkaði fyrir mikinn áhuga og góða athygli. Lögrétta brýnir mjög fyrir félagsmönnum sínum að góð hegðun endurspeglar lagadeild HR og skólann sjálfan,“ segir formaður Lögréttu. Eins og Orator býður félagið almenningi ókeypis lögfræðiaðstoð og stendur fyrir málþingum um ýmis brýn mál. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×