Erlent

Bigelow besti leikstjórinn fyrst kvenna

Kathryn Bigelow sést hér með kynnum kvöldsins þeim Steve Martin og Alec Baldwin.
Kathryn Bigelow sést hér með kynnum kvöldsins þeim Steve Martin og Alec Baldwin. Mynd/AP

Spennumyndin The Hurt Locker kom, sá og sigraði þegar Óskarsverðlaunin voru afhend í 82. sinn í Hollywood, í nótt. Myndin vann til sex verðlauna, þar á meðal sem besta myndin og fyrir bestu leikstjórn.

Kathryn Bigelow fékk verðlaun sem besti leikstjórinn fyrst kvenna. Meðal þeirra sem störfuðu við gerð kvikmyndarinnar sem fjallar um sprengjuleitarmenn í Írak var íslenski leikmyndahönnuðurinn Karl Júlíusson. Með sigrinum skaut Kathryn fyrrverandi eiginmanni sínum, James Cameron, ref fyrir rass því stórmynd hans Avatar hlaut einungis þrenn verðlaun en kvikmyndin var tilnefnd til níu verðlauna, þar á meðal sem besta myndin og fyrir leiksstjórn.

Jeff Bridges var verðlaunaður sem besti karlleikarinn fyrir hlutverk sitt í myndinni Crazy Heart og Sandra Bullock var valin besta leikkonan fyrir kvikmyndina The Blind Side. Besta leikkonan í aukahlutverki var Mo´nique í myndinni Precious og hinn austurríski Christoph Waltz hlaut verðlaun sem besti aukaleikarinn fyrir frammistöðu sína í kvikmyndinni Inglorious Basterds.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×