Erlent

Ferlegur frændgarður

Óli Tynes skrifar
Sæll frændi.
Sæll frændi.

Fjörutíu og sex ára gamall austurrískur bóndi er í sjokki eftir að hann komst að því að hann er náinn ættingi Adolfs Hitlers. Og hann á fullt af skyldfólki í hinu afskekta Waldviertel héraði í Austurríki.

Það var belgiskur blaðamaður Jean-Paul Mulders sem hafði upp á ættingjum Hitlers. Hann hafði orðið sér úti um DNA sýni úr einum af þrem þekktum ættingjum  foringjans, sem býr á Long Island í New York.

Amma, pabbi og mamma

Með það að vopni heimsótti hann Waldviertel. Þar bjó amma Hitlers Anna Schiklgruber á sínum tíma og einnig foreldrar hans Alois og Klara.

Eftir síðari heimsstyrjöldina hvarf Hitlers nafnið alveg úr héraðinu, þar sem ættingjar fengu því breytt. Margar fjölskyldur bera þó svipuð nöfn eins og Hiedler og Huettler.

Mulder fékk fólk til þess að leyfa sér að taka DNA sýni sem hann sendi svo á rannsóknarstofu. Auk fyrrnefnds bónda fann hann þrjátíu og níu ættingja Hitlers.

Iðrast að hafa gefið sýni

Bóndinn segir að hann hafi enga ástæðu til þess að halda að DNA greiningin sé ekki rétt en hann sér nú eftir að hafa leyft sýnatökuna.

-Hitler var í mínum augum mesti glæpamaður allra tíma. Ég leyfði þessa sýnatöku í hugsunarleysi. Ég vildi að ég hefði ekki gert það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×