Erlent

Forseti Súdans heldur völdum

Forsetinn fékk um 68 prósent atkvæða og verður áfram við völd. Í Súdan er gnótt auðæfa, svo sem olíu, en flestir landsmenn lifa við kröpp kjör.Nordicphotos/afp
Forsetinn fékk um 68 prósent atkvæða og verður áfram við völd. Í Súdan er gnótt auðæfa, svo sem olíu, en flestir landsmenn lifa við kröpp kjör.Nordicphotos/afp

Tilkynnt var í gær að Omar al-Basjír forseti, sem eftirlýstur er fyrir stríðsglæpi í Darfúr, hafi orðið hlutskarpastur í forsetakosningum, með um 68 prósent atkvæða.

Þetta eru fyrstu kosningarnar í Súdan í 24 ár þar sem fleiri en einn flokkur býður sig fram og voru þær flóknar í framkvæmd.

Kosningaeftirlitsstofnanir og stjórnarandstaða fullyrða að svik hafa verið í tafli og um helgina urðu skærur vegna kosninganna milli araba og hermanna úr suðurhluta landsins. Um 55 manns voru drepnir.

Fréttaritari BBC, James Copnall, segir að túlka megi endurkjör al-Basjírs sem svo að kjósendur hafi viljað snupra Alþjóðaglæpadómstólinn, sem hefur gefið út handtökutilskipun á hendur al-Basjír, vegna meintra stríðsglæpa. Forsetinn segist enga glæpi hafa framið.

Súdan er stærsta land Afríku. Suðurhluti þess er að jafna sig á 21 árs borgarastríði, sem lauk 2005. Al-Basjír framdi valdarán 1989, án blóðsúthellinga, og tók sér þá forsetavald.- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×