Skoðun

Hvar er rannsóknarnefndin?

Davíð Stefánsson skrifar
Á nokkrum mánuðum hefur Besti flokkurinn sýnt að ef ríkur vilji er fyrir hendi er hægt að ganga í einstaka mál innan borgarinnar af miklum skörungsskap, einkum ef sá vilji passar vel við vilja borgarbúa almennt.

Hér er hægt að nefna sem dæmi afnám gjaldtöku fyrir börn í sund (tímabundin aðgerð í sumar), lokun fyrir bílaumferð í miðbænum og tilraunir með aukið vægi hjólreiðamanna á Hverfisgötu. Besti flokkurinn hefur einnig sýnt í verki að hann vill endurskoða rekstur Orkuveitunnar.

En nú bregður svo við að í vor var samþykkt í borgarráði tillaga frá Þorleifi Gunnlaugssyni, borgarfulltrúa Vinstri-grænna, um að stofnuð yrði rannsóknarnefnd til að skoða starfshætti borgarinnar, stofnana hennar og fyrirtækja. Tillagan kom beint í kjölfarið á rannsóknarskýrslu Alþingis, en þar fengu Íslendingar innsýn í það hversu lömuð og spillt stjórnsýsla landsins hafði verið. Eftir það beindust sjónir auðvitað að Reykjavíkurborg og hvort þar gætu líka leynst meindýr í skúmaskotum.

Tillagan var lögð fram þann 6. maí. Hún var samþykkt af fulltrúum allra flokka. Í tillögunni kemur fram að starfsáætlun nefndarinnar eigi að liggja fyrir þann 1. júní 2010 og hún skili niðurstöðum þann 31. desember 2010.

Það er á þessu ári. Eftir nokkra mánuði sem sagt. Samt er ekki búið að skipa í nefndina.

Það er erfitt að alhæfa, en mín tilfinning er sú að eftir að rannsóknarskýrsla Alþingis staðfesti það sem alla grunaði hafi þjóðinni létt stórum. Þótt efnisatriði skýrslunnar hafi leitt í ljós hryllilegar staðreyndir um vanhæfni embættismanna, ráðherra og aðila í einkarekstri var engu að síður gott að fá það allt saman staðfest.

Það sama þarf að gerast í Reykjavíkurborg. Og það þarf að gerast hið fyrsta. Við þurfum að losna við gruninn um að eitthvað hafi verið rotið í Reykjavík – við þurfum að komast af grunsemdastiginu yfir á staðreyndastigið. Þess vegna var tillaga Vinstri-grænna lögð fram strax í vor. Og líklega var það líka þess vegna sem fulltrúar allra flokka í borgarráði samþykktu tillöguna. Líklega hafa þeir líka viljað finna sannleikann.

Besti flokkurinn er eini flokkurinn sem kemur nýr að þessu máli. Hann hefur líka talað fyrir breyttum vinnubrögðum og meiri heiðarleika. Því skýtur skökku við að nú í byrjun september sé ekki enn búið að skipa rannsóknarnefndina. Það eru fjórir mánuðir þangað til hún hefði átt að skila af sér niðurstöðum. Það eru þrír mánuðir síðan starfsáætlun átti að liggja fyrir. Hvað skýrir þessa töf?

Minn kæri Jón Gnarr, boðberi gleði og heiðarleika: Hvar er rannsóknarnefndin sem þegar er búið að samþykkja? Hvar er rannsóknarnefndin sem á að finna sannleikann um rekstur borgarinnar undanfarin ár?

Spyr einn glaður borgari sem bíður eftir heiðarlegu svari.



Skoðun

Sjá meira


×