Erlent

Sögulegur samningur Kína og Taiwans

Óli Tynes skrifar

Samningurinn felst í stuttu máli í því að tollar eru afnumdir af hundruðum vöruflokka. Það verður væntanlega til þess að auka enn viðskipti milli landanna sem þegar nema 110 milljörðum dala árlega. Það eru yfir fjórtán þúsund milljarðar íslenskra króna.

Sérfræðingar segja að efnahagslega sé samningurinn hagstæðari Taiwan en Kína, en að Kínverjar vonist til þess að hafa af honum pólitískan ávinning.

Löndin hafa deilt um yfirráð yfir Taiwan síðan eftir borgarastyrjöldina árið 1949. Kommúnistar undir stjórn Mao Tse Tungs fóru þar með sigur af hólmi og uppreisnarher Chang Kai Cheks flúði yfir sundið til Taiwans.

Kínverjar á meginlandinu hafa alltaf haldið því fram að eyjan væri óaðskiljanlegur hluti Kínverska alþýðulýðveldisins.

Þeir hafa sagt að hún yrði sameinuð meginlandinu með góðu eða illu. Oft hefur horft ófriðlega á þessum slóðum og Kínverjar hótað innrás.

Bandaríkjamenn hafa alla tíð stutt Taiwan og löndin hafa með sér samning um að Bandaríkin skerist í leikinn ef Kínverjar gera innrás.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×