Innlent

Stjórnvöld njósnuðu ekki um forsvarsmenn Wikileaks

Dómsmálaráðherra kannast ekki við að íslensk stjórnvöld hafi njósnað um forsvarsmenn Wikileaks síðunnar á meðan þeir voru staddir hér á landi. Hún telur að málið sé byggt á misskilningi.

Á vefsvæði Wikileaks eru íslensk stjórnvöld sökuð um að taka þátt í meintum njósnum um forsvarsmenn síðunnar ásamt bandarískum embættismönnum.

Julian Assange, ritstjóri síðunnar, setur þetta meðal annars í samhengi við áform Wikileaks um að birta myndband sem sýnir árás bandaríkjahers á saklausa borgara í Afganistan.

Dómsmálaráðherra segir að þessar ásakanir séu úr lausu lofti gripnar.

„Ég athugaði þetta í gær og í dag. Það er engin lögreglurannsókn um starfsemi Wikileaks þannig að þessar ásakanir standast ekki," segir Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.

Ungur samstarfsaðili Wikileaks var handtekinn við innbrot í Kópavogi á mánudag. Af því sem fram kemur á heimasíðu Wikileaks var maðurinn meðal annars spurður út í starfsemi síðunnar þegar hann var yfirheyrður af lögreglunni.

Ragnar segir að málið sé byggt á misskilningi. „Það var ungur maður handtekinn á mánudag vegna innbrots og hann hafði meðferðis tölvu og þegar hann var spurður út í tölvuna kvað hann hana vera í eigu Wikileaks. Þannig að ég get ímyndað mér að þarna sé skýringin komin á öllum þessum samsæriskenningum," segir Ragna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×