Erlent

Fleiri tapa en flugfélögin

Flugfélagið í Dúbaí segist hafa tapað nærri átta milljörðum króna eftir að hafa fellt niður 250 flugferðir til og frá Evrópu.nordicphotos/AFP
Flugfélagið í Dúbaí segist hafa tapað nærri átta milljörðum króna eftir að hafa fellt niður 250 flugferðir til og frá Evrópu.nordicphotos/AFP
Öskuskýin frá Íslandi hafa ekki aðeins komið illa niður á rekstri flugfélaga, heldur eru áhrifin af flugstöðvuninni farin að bitna á efnahagslífi víða um heim með margvíslegum hætti.

Fyrir utan illa stadda blómaframleiðendur í Keníu, sem komist hafa í fréttir, má nefna að ananasframleiðendur í Gana sitja uppi með birgðir sem skemmast hratt og virðast ekki ætla að komast á áfangastað í bráðina.

Áhrifin eru víðtæk, því með hverjum deginum sem líður verða allir þeir sem flytja ferskvöru til Evrópuríkja eða frá þeim af umtalsverðum viðskiptum.

Útlitið er þó tvímælalaust verst fyrir flugfélögin. Samanlagt tap þeirra er talið nema nærri 25 milljörðum króna á dag. Siim Kallas, samgöngustjóri Evrópusambandsins, segir að áfallið fyrir flugrekendur sé nú þegar orðið verra en af árásum Al Kaída á Bandaríkin haustið 2001.

Jafnvel hefur vaknað uggur um að efnahagslíf margra ríkja muni vart þola þetta högg beint ofan í heimskreppuna, sem þau eru vart farin að ná sér af enn. Sumir græða þó aldeilis á þessum hamförum, svo sem ferjurekendur í Skandinavíu, hóteleigendur sem rukka nærri hundrað þúsund krónur fyrir næturgistingu, eða leigubílstjórar sem næla sér í farþega sem greiða meira en hálfa milljón fyrir að láta keyra sig á milli landa.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×