Lífið

Fjallabræður sitja eftir heima

Karlakórinn vinsæli hefur hætt við að syngja á evrópskri menningarhátíð í Manchester. fréttablaðið/gva
Karlakórinn vinsæli hefur hætt við að syngja á evrópskri menningarhátíð í Manchester. fréttablaðið/gva

„Þetta er hundfúlt. Það var búið að safna peningum fyrir þetta,“ segir útvarpsmaðurinn og Fjallabróðirinn Ólafur Páll Gunnarsson.

Karlakórinn Fjallabræður hefur hætt við að syngja á evrópskri menningarhátíð í Manchester á morgun. Þetta áttu að vera fyrstu tónleikar sveitarinnar erlendis en þeir verða að bíða betri tíma. Þetta hljóta að teljast mikil vonbrigði fyrir þennan hressa karlahóp, sem gaf út sína fyrstu plötu fyrir síðustu jól.

„Þeir gátu ekki mætt okkar tæknilegu kröfum þegar allt kom til alls. Þegar við förum, fjörutíu til fimmtíu manns, til útlanda til að syngja í þrjú kortér þarf þetta að minnsta kosti að vera þannig að við séum ánægðir,“ segir Óli Palli. „Þetta var vesen með græjur. Þeir gátu ekki mætt okkar óskum í því, þannig að við ákváðum bara að hætta við. Það er meira en að segja það að fara með þennan hóp út og það var ákveðið að betur væri setið heima.“

Annar Fjallabróðir, Stefán B. Önundarson, útskýrir að stærðin hafi einfaldlega fellt kórinn í þetta sinn. Meðal annars hafi Manchester-menn ekki átt nógu marga hljóðnema handa þeim. „Við vorum búnir að fjármagna þetta með sölu á klósett-pappír og berjatínum en því miður gekk þetta ekki.“

Að sögn útvarpsmannsins Óla Palla hafa forsvarsmenn hátíðarinnar boðið Fjallabræðrum á aðra hátíð sem verður haldin í september, þar sem auðveldara verður að verða við óskum þeirra. „Það koma tækifæri eftir þetta,“ segir hann og greinilegt að Fjallabræður eru ekki af baki dottnir þrátt fyrir vonbrigðin. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.