Lífið

Heimsljós sem sálumessa

Tryggvi M. Baldvinsson tónskáld kynntist Heimsljósi á unglingsárunum og fann að sálumessuformið hentaði best hinum trúarlega tóni sem er að finna í skáldverkinu. mynd Fréttablaðið/GVA
Tryggvi M. Baldvinsson tónskáld kynntist Heimsljósi á unglingsárunum og fann að sálumessuformið hentaði best hinum trúarlega tóni sem er að finna í skáldverkinu. mynd Fréttablaðið/GVA

Söngsveitin Fílharmónía fagnar 50 ára afmæli með glæsilegum afmælistónleikum sunnudaginn 9. og þriðjudaginn 11. maí í Langholtskirkju, kl. 20 báða daga. Þar verður frumflutt nýtt íslenskt tónverk sem kórinn pantaði af þessu tilefni af tónskáldinu Tryggva M. Baldvinssyni: Heimsljós – íslensk sálumessa. Með verkinu er brugðið nýju ljósi á eitt ástsælasta bókmenntaverk okkar, en texti tónverksins er sóttur í verk Laxness. Verk Tryggva er í sex köflum, samið fyrir kór, hljómsveit og tvo einsöngvara.

Kórinn leitaði til Tryggva fyrir meir en tveimur árum og hefur verið spennandi að fylgjast með þróun og tilurð verksins sem kórinn hefur æft af kappi síðustu mánuði og tekið miklu ástfóstri við. Segja kórfélagar að honum tekist að skapa listaverk ríkt af tilfinningu sem talar til huga og hjarta.

Tryggvi kynntist skáldsögu Halldórs á unga aldri og lýsir fyrsta lestri sínum hugljómun: „Á mörgum stöðum hefur textinn mann upp í annan heim, drauma, lita og einlægrar fegurðar, stundum nokkuð sársaukafullan, en jafnframt umvefur skáldskapurinn lesandann mikilli hlýju.“ Sagan hefur fylgt honum síðan.

Tónverkið er kynnt sem sálumessa. Víst má til sanns vegar færa að sagan lýsir stríði sem háð er um sál og líf Ólafs ljósvíkings. Þar takast mörg öfl á:

„Hinum trúarlega tóni sem svífur yfir vötnunum í sögunni um Ólaf Kárason fannst mér best komið til leiðar í formi sálumessu, því að efnistök bókarinnar ríma vel við hina þrjá meginþætti sálumessunnar: ákall, uppgjör og friðþægingu. Með þessu verki er ég þó alls ekki að reyna að rekja sögu Ólafs Kárasonar, enda er textinn í tónverkinu tekinn héðan og þaðan og myndar engan efnislegan söguþráð. Mín athygli er á textanum sjálfum og þeim töfrum sem þar felast. Það fór mikill tími í að velja þá kafla og setningar sem ég notaðist við að lokum. Þeir þurftu bæði að innihalda þá ljóðrænu sem ég sóttist eftir og jafnframt að henta sem sjálfstæður þáttur í sálumessunni.

Ég tók mér það leyfi að stytta suma textana, fella úr þeim orð, setningar og jafnvel málsgreinar til að fella þá betur að tónlistinni. Texti þriðja þáttar, Guð refsar öllum sem svíkjast um, sker sig nokkuð úr, því að þar er ekki stuðst við heila málsgrein heldur er textinn að miklu leyti settur saman úr skammaryrðum og upphrópunum í garð Ólafs Kárasonar. Þessi reiðilestur er slitinn í sundur af draumi Ólafs um betri tíma. Eflaust væri hægt að tengja hefðbundin latnesk kaflaheiti sálumessunnar við hina sex kafla íslenskrar sálumessu og bæri þá 3. þátturinn eflaust nafnið Dies irae, en mér fannst mun eðlilegra að nota kaflaheiti sem sótt eru í textann.“

Þá verða einnig fluttir valdir kaflar úr nokkrum þeim stóru verkum sem Söngsveitin Fílharmónía hefur flutt á ferli sínum, meðal annars úr Carmina Burana, Þýsku sálumessu Brahms, Messías eftir Handel og verkum eftir Mozart, Haydn og Bach. Söngsveitin hefur á ferli sínum lagt megináherslu á flutning stórra tónverka fyrir kór og hljómsveit og frumflutt á Íslandi fjöldamörg helstu kórverk tónlistarsögunnar.

Einsöngvarar eru Ingibjörg Guðjónsdóttir og Snorri Wium. Sif Tulinius er konsertmeistari 30 manna hljómsveitar og Magnús Ragnarsson stjórnar tónleikunum.- pbb

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.