Handbolti

Guðmundur: Rússar munu mæta af fullum krafti í leikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari. Mynd/DIENER/Leena Manhart
Guðmundur Guðmundsson segir það engu máli skipta þó svo að Rússar séu án stiga í milliriðlakeppninni. Þeir gefast aldrei upp og munu mæta af fullum krafti í leikinn gegn Íslandi í dag.

Vísir náði tali af Guðmundi þegar landsliðið var að koma af löngum fundi nú í morgun.

„Við erum nú búnir að undirbúa okkur eins vel og kostur er og bæði búnir að greina okkar leik sem og andstæðingsins," sagði Guðmundur.

„Það er eitt og annað sem við þurfum að fara yfir hjá okkur. Til dæmis þurfum við að bæta hraðaupphlaupin. Króatarnir lokuðu mjög vel á okkur í gær og við höfum því gert smá áherslubreytingar hjá okkur. Við skulum sjá til hvort það muni færa okkur fleiri mörk."

„Við þurfum líka að fara mjög vel yfir hvað við ætlum að gera gegn sóknarleik Rússana," sagði Guðmundur sem reiknar með erfiðum leik í dag.

„Það er enginn vafi á því að Rússar muni gefa allt sitt í leikinn í dag - þeir hætta aldrei. Það þýðir ekkert að hugsa um hvað þeir eru með mörg stig. Við munum örugglega fá mjög harða mótspyrnu og þurfum að vera mjög grimmir gegn þeim."

Það verður franskt dómarapar á leiknum í dag en Guðmundur vill sem minnst tjá sig um dómarana.

„Ég hreinlega forðast að hugsa um þessi dómaramál. Það er aldrei hægt að vita hvaða áherslur verða í dómgæslunni hverju sinni. Þessi mál eru mjög sérkennileg og þarf að skoða þau rækilega í kjölinn eftir að mótinu lýkur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×