Lífið

Bömmer í Miðgarði: Hobbitanum frestað um óákveðinn tíma

Peter Jackson er framleiðandi myndarinnar.
Peter Jackson er framleiðandi myndarinnar.

Kvikmyndinni Hobbitanum hefur verið slegið á frest um óákveðinn tíma. Þetta staðfesti leikstjóri myndarinnar, Guillermo Del Toro, í samtali við vefsíðuna comingsoon.com. Myndin segir söguna á undan Hringadróttinssögu og aðdáendur bókanna eftir J. R.R Tolkien hafa beðið spenntir eftir útfærslunni á hvíta tjaldinu. Þeir verða að bíða enn um sinn en ekki liggur fyrir hvenær og hvort haldið verði áfram með framleiðsluna. Peter Jackson, framleiðandi myndarinnar, hafði áður lýst því yfir að ekki væru neinir erfiðleikar með myndina enda hefði ekki verið tilkynnt hvenær hún yrði frumsýnd.

Aðalástæðan fyrir þessari óvissu er sögð vera bagaleg fjárhagsstaða MGM-kvikmyndaversins. Þetta fornfræga fyrirtæki var auglýst til sölu á síðasta ári en mikið tap hefur verið á rekstri þess. Enn hefur ekki fundist neinn kaupandi að fyrirtækinu og á meðan eru verkefni þess í uppnámi. Del Toro segir að um leið og vandamál MGM verði leyst geti þeir hafist handa við tökur því allri undirbúningsvinnu sé lokið. „Við höfum hannað allar skepnunnar, leikmyndir og búninga. Við verðum því tilbúin þegar kallið kemur."

Hobbitinn er ekki fyrsta stórmyndin sem lendir í vandræðum vegna fjárhagsvanda MGM. Nýjustu Bond-myndinni hefur einnig verið frestað þar til að tekist hefur að greiða úr fjárhagsflækjum MGM.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.