Erlent

Líklegt að Miðjusamstaðan fari með sigur af hólmi

Valdis Zatlers forseti Lettlands skilar atkvæði sínu.
Valdis Zatlers forseti Lettlands skilar atkvæði sínu. Mynd/AFP
Útlit er fyrir að miðjuflokkur rússneska minnihlutans í Lettlandi fari með sigur af hólmi í þingkosningum sem fram fara í Lettlandi í dag. Það yrðu söguleg úrslit því flokkurinn hefur aldrei náð miklu fylgi á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá því Lettar sögðu skilið við Sovétríkin. Flokkurinn sem mætti kalla Miðjusamstaðan á íslensku, er aðallega skipaður frambjóðendum sem eiga rætur að rekja til Rússlands.

Ólíklegt er talið að flokkurinn nái hreinum meirihluta á hundrað sæta þingi Lettlands. Þá er ekki talið líklegt að flokknum verði hleypt að stjórnarmyndunarborðinu. Flokkurinn gæti hins vegar átt aðild að samsteypustjórn í náinni framtíð þar sem stjórnarskipti eru tíð í Lettlandi.

Næstu ríkisstjórnar bíður að taka ákvarðanir um mikinn niðurskurð og skattahækkanir í tengslum við efnahagsáætlun landsins hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Formaður Miðjusamstöðunnar vísar á bug ásökunum um að flokkurinn muni leiða Letta bæði úr NATO og Evrópusambandinu komist flokkurinn til áhrifa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×