Erlent

Reyna að svíkja fórnarlömb Bernie Madoffs

Bernie Maddof. Mynd/AFP
Bernie Maddof. Mynd/AFP
Það á ekki af fórnarlömbum fjárglæframannsins alræmda Bernie Madoff að ganga. Vefsíða lofar þeim endurgreiðslu hluta fjárins sem Madoff sveik af þeim en tilgangur síðunnar er hins vegar ekki göfugur.

Madoff var fundinn sekur í júní á síðasta ára um að hafa svikið 65 milljarða dollara, jafnvirði tæplega átta þúsund milljarða íslenskra króna, af þúsundum viðskiptavina sinna yfir margra ára tímabil. Madoff afplánar nú 150 ára fangelsisdóm fyrir svikin.

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa varað fórnarlömb Madoffs við vefsíðunni en þar kemur fram að andvirði tæplega 170 milljarða króna hafi fundist á leynilegum reikningi hans í Malasíu. Félagið sem stendur á bak við síðuna er meðal annars sagt tengjast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Sameinuðu þjóðunum.

Vefsíðunni er beint að einstaklingum sem Madoff tókst að hlunnfara og þeir beðnir um að senda inn margvíslegar persónu- og bankaupplýsingar til að fá hluta af fénu sem þeir töpuðu til baka. Bandarísk yfirvöld vita ekki hverjir standa á bak við síðuna en vara fórnarlömb Madoffs eindregið við að gefa upp umræddar upplýsingar þar sem enginn leynireikningur hafi fundist í Malasíu. Ljóst sé að forsvarsmenn vefsíðunnar séu að reyna að hafa af þeim fé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×