Innlent

Þingmenn vilja fækka myrkum morgnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það er mjög dimmt á morgnana á þessum árstíma. Mynd/ Hari.
Það er mjög dimmt á morgnana á þessum árstíma. Mynd/ Hari.
Klukkunni á Íslandi verður seinkað um klukkustund, verði þingsályktunartillaga fjórtán þingmanna úr öllum flokkum á Alþingi samþykkt. Gert ráð fyrir að fundin verði hentug tímasetning til þess að ráðast í aðgerðina innan árs frá samþykkt þingsályktunartillögunnar.

Í greinargerð með tillögunni segir að miðað við gang sólar sé klukkan á Íslandi rangt skráð. Í stað þess að sól sé hæst á lofti um hádegisbil sé sól á Íslandi hæst á lofti í Reykjavík að meðaltali klukkan 13.28 og á Egilsstöðum hálftíma fyrr. Verði klukkunni varanlega seinkað um eina klukkustund, eins og tillaga þessi gerir ráð fyrir, yrði sól hæst á lofti í Reykjavík að jafnaði klukkan hálf eitt og á Egilsstöðum í kringum tólf, eins og eðlilegt sé.

„Vegna þessarar tímaskekkju á Íslandi kannast líklega flestir Íslendingar við þá nöpru tilfinningu að þurfa að vakna til vinnu eða skóla í svartamyrkri stóran hluta ársins. Í raun er enn nótt á Íslandi, miðað við gang sólar, þegar Íslendingar fara til vinnu klukkan átta eða hálf níu miðað við núverandi klukku. Verði klukkunni seinkað um eina klukkustund verða morgnarnir hins vegar bjartir langt fram í nóvember og byrja aftur að verða bjartir síðari hluta janúar. Sólin rís oftar á undan fólkinu með tilheyrandi varma og birtu. Myrkum morgnum fækkar til muna," segir í greinagerðinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×