Körfubolti

Jeb Ivey til Snæfells - er í ferju á leiðinni til Stokkhólms

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeb Ivey varð Íslandsmeistari með Njarðvík árið 2006.
Jeb Ivey varð Íslandsmeistari með Njarðvík árið 2006.

Snæfellingar hafa ákveðið að skipta um leikstjórnanda vegna meiðsla Sean Burton. Burton er tognaður illa á ökkla og var aðeins skugginn af sjálfum sér í fyrsta leik úrslitaeinvígis Snæfells og Keflavíkur.

Ingi Þór Steinþórsson hefur kallað á Jeb Ivey, fyrrum leikmann KFÍ og Njarðvíkur, til að hlaupa í skarðið fyrir Burton. Þetta kom fyrst fram í viðtalsþætti Valtýs Björns Valtýssonar á X-inu.

Það hefur hinsvegar gengið illa að koma Jeb Ivey til Íslands vegna flugbannsins í Evrópu og er hann sem stendur að ferðast með ferju frá Helsinki til Stokkhólms þar sem að hann mun taka fyrstu flugvél til Íslands. Ingi Þór vonast til að Ivey verði kominn fyrir næsta leik sem er í Stykkishólmi á morgun.

Jeb Ivey lék síðasta á Íslandi fyrir þremur árum en varð Íslandsmeistari með Njarðvík 2006 og í 2. sæti með liðinu árið eftir. Ivey lék með Joensuun Kataja í Finnlandi í vetur en liðið datt út úr úrslitakeppninni á dögunum eftir tap í oddaleik í 8 liða úrslitum. Ivey var með 16.0 stig og 2,9 stoðsendingar að meðaltali í finnsku úrvalsdeildinni í vetur.

Jeb Ivey var með 22,6 stig og 5,8 stoðsendingar í 78 deildarleikjum með KFÍ, Fjölni og Njarðvík frá 2003 til 2007. Ivey var með 20,3 stig og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í átta leikjum með njarðvík í lokaúrslitum 2006 og 2007. Hann hitti þar úr 24 ag 65 þriggja stiga skotum sínum eða úr 36,9 prósent skotanna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.