Erlent

Vilja ekki Lada bifreiðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Danir eru hættir að vilja Lada bifreiðar. Í tvö ár hefur ekki verið skráð ein ný Lada í Danmörku. Umboðsaðili bílanna í Kolding, Nic Christiansen, hefur því ákveðið að hætta innflutningi þeirra, segir danska blaðið Politiken.

Í 10 ár hafa einungis verið nýskráðar 316 Lada bifreiðar í Danmörku. Það eru mun færri bifreiðar en voru skráðar á níunda áratug síðustu aldar. Þá keyptu Danir bílana í stórum stíl og litu á þá sem einskonar afbrigði af Fiat bílunum. Þá var Ladan ódýr líkt og tékkneski Skodinn sem var afar vinsæll. Í Þýskalandi eru ennþá seldar Lada bifreiðar, þar á meðal Kalina, Priora og Niva.

Lausleg könnun Vísis bendir til þess að Íslendingar séu, líkt og Danir, hættir að vilja Lada bifreiðar. Þær eru sjaldséðar á götum og samkvæmt vefnum bilasolur.is er ekki ein einasta Lada bifreið til sölu þessa stundina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×