Skoðun

Persónukjör?

Páll Rafnar Þorsteinsson skrifar

Kosningalög eru ekki og ættu ekki að vera bundin í stjórnarskrá nema þá í allra mestu grundvallaratriðum, svo sem hvað varðar atkvæðisrétt, kjörgengi og ef til vill kjördæmaskipan. Þó er líklega heppilegast að síðast talda atriðið falli undir almenna lagasetningu að tilskilinni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Spurningin um persónukjör er þess vegna ekki sérstakt viðfangsefni fyrir stjórnlagaþing. En hugmyndin virðist njóta mikils fylgis og frambjóðendur halda henni nær undantekningalaust á lofti. Ég tel að á henni séu miklir vankantar sem ég vil rekja hér að neðan. En fyrst er rétt að spyrja hvað fáist með persónukjöri og hvað það er sem fólk vill eða telur sig geta náð fram með því að koma slíku fyrirkomulagi á.

Hvaða ávinningur er af persónukjörsfyrirkomulaginu?

Fyrst er að nefna að persónukjör hefði það mjög líklega í för með sér að endurnýjun í æðstu stjórn ríkisins yrði auðveldari og hraðari. Slík endurnýjun er vissulega bæði eðlileg og nauðsynleg. En hún getur engan veginn talist vera markmið í sjálfu sér. Önnur sjónarmið koma þar á móti, til að mynda reynsla og sérþekking.

Líklega vilja margir líka meina að auk endurnýjunar verði með persónukjöri auðveldara að velja til setu á Aþingi, ekki bara hæfileikafólk heldur "heiðarlegt fólk" - skilja hafrana frá sauðunum sem raða sér á framboðslistana. Í huga margra hefur flokkspólitík beinlínis í för með sér spillingu og oft virðist litið á stjórnmálaflokka sem gróðrarstíur spillingar.

Í þriðja lagi er bent á að stjórnmálamenn séu of gjarnir á að beygja sig undir flokksaga en fylgi ekki sannfæringu sinni. Því er haldið fram að með persónukjöri verði framgangur þeirra sem starfa að þjóðmálum ekki háður því hvort þau komi sér í mjúkinn hjá forystu flokksins (eða flokkseigendafélaginu eins og hún er stundum nefnd).

Þá er látið að því liggja að óháðir stjórnmálamenn geti einmitt í krafti sjálfstæðis síns komið fram af heiðarleika og unnið galvaskir að framgangi sinna hjartans mála. Þar með er gefið í skyn að umræður verði einlægari og sjónarmið komi fram sem ella hefðu verið kæfð í fæðingu þar eð þau samræmist ekki þröngri sérhagsmunagæslu flokksræðisins. Mér sýnist að fólk telji að með persónukjöri sé hægt að brjótast út úr gamaldags hagsmunapólitík og draga úr spillingu.

Að síðustu er því gjarnan haldið fram að persónukjör geri "venjulegu" fólki auðveldara fyrir að koma sér á framfæri og hasla sér völl á sviði stjórnmála. Stundum finnst mér reyndar eins og venjulegt fólk sé talið heiðarlegra en annað fólk, sérstaklega í samanburði við "stjórnmálafólk". Ofangreind atriði virðast því haldast nokkuð í hendur. Allt þetta má draga saman í slagorð á borð við: "ferskleiki, heiðarleiki, sjálfstæði"

Þó svo að hugsunin sé snotur er ég alls ekki sannfærður. Ég held að persónukjörsfyrirkomulagið sé ekki vel til þess fallið að raungera þær háleitu hugsjónir sem ég hef rakið. Ég held að þessi hugsunarháttur sé á villigötum, ég held að hugmyndin sé fljótfærnisleg og feli í sér einföldun á veruleikanum.

Hvað er bogið við persónukjör?

Er öldungis víst að fulltrúar sem kjörnir eru persónukjöri séu óháðir í raun. Nei, síður en svo. Þvert á móti má leiða rök að því að þeir séu berskjaldaðri gagnvart þrýstihópum heldur en öflugar stjórnmálahreyfingar (sbr ágæta grein eftir Stefán Pálsson á Pressunni fyrir skemmstu). Sterkir hagsmunaðilar eiga auðvelt með að stilla einstaklingi upp við vegg, krefja hann um afstöðu til tiltekins málefnis og mælast svo til þess af skjólstæðingum sínum að hampa viðkomandi eða hundsa, allt eftir því hvort afstaða hans var þeim þóknanleg eða ekki. Stjórnmálaflokkur hefur í þessu samhengi meira mótstöðuafl. Það eru jú jafnan einstaklingar sem láta undan hópþrýstingi fremur en hópar.

Einnig verður að teljast ólíklegt að einstakir frambjóðendur geti með góðu móti sett fram heildstæða stefnuskrá sem tæki til flestra þeirra málefna sem eðlilegt er að stjórnmálaöfl geri. Alltént gæti slík stefnuskrá tæplega verið annað en yfirborðkennt samansafn slagorða. Þá er hætt við að viss málefni, sérstaklega jaðarmálefni, verði útundan og að umræða taki í auknum mæli að snúast um vinsæl dægurmálefni sem kunna vel að kveikja mikinn tilfinningahita án þess endilega að vera þungvæg í langtíma samhengi.

Vissulega má hugsa sér takmarkað form af persónukjöri, svo sem frjálsa uppröðun innan framboðslista sem byggir á breiðari grunni. Slíkt fyrirkomulag væri undir sömu sökina selt. Hver vill t.d. vera málsvari flokks um jaðarmálstað ef það hefur í för með sér að lenda neðarlega á listanum á kjördag?

Það er einmitt hætt við því að stjórnmálamenn veigri sér við að leggja "leiðinlegum" málstað lið og víki sér undan því að taka erfiðar, óvinsælar ákvarðanir. Það yrði m.ö.o. meira freistandi að elta tískumálefni og beygja sig undir almenningsálitið.

Fyrir eyrum einhverra kynni þetta að hljóma eins og hin mesta lýðræðisumbót en felur þó raunverulega í sér misskilning á hlutverki stjórnmálamannsins. Stjórnmálin þurfa að takast á við erfið mál og oft þarf að taka óvinsælar ákvarðanir - annað er bara draumsýn.

Ef akkurinn af persónukjöri er fyrst og fremst sá að auðveldara verður að refsa spilltum stjórnmálamönnum með atkvæðum og velja í staðinn sómafólk, þá gætu önnur meðul gert sama gagn eða meira með minni fórnarkostnaði: skýrt regluverk, skilvirkt eftirlit o.s.frv. Það mætti t.d. hugsa sér að ef grunur vaknar um brot á siðareglum geti tiltekinn fjöldi kjósenda í kjördæmi farið fram á að viðkomandi geri hreint fyrir sínum dyrum, óháða rannsókn eða beinlínis afsögn.

Ég vil líka velta upp þeirri spurningu hvort persónukjör geri "venjulegu" fólki í raun auðveldara að láta að sér kveða. Því þegar valið stendur á milli mikils fjölda einstaklinga verður erfitt fyrir kjósanda að kynnast því fyrir hvað hver og einn stendur. Þá munu þeir hafa forskot sem þekktir eru fyrir, vinsælir eða hafa fjárráð og tengsl til þess að koma sér á framfæri. Ég dreg þá ályktun að persónukjörs-hugmyndafræðin uppfylli ekki einu sinni sín eigin árangursskilyrði.

En helsti gallinn við þessa hugmynd um persónukjör er sá að gagnrýnin á flokksræði, sem hún grundvallast á, er í sjálfri sér byggð á vissum misskilningi á eðli stjórnmálastarfs. Það er að segja, þeirri megin hugmynd að miðla þurfi málum á milli ólíkra sjónarmiða.

Einstaklingur sem vill finna hugmyndum sínum farveg innan stjórnmálahreyfingar velur sér að vinna með fólki sem er líkt þenkjandi. Til þess að stuðla að framgangi sinnar eigin heildarafstöðu til samfélagsheilla er skynsamlegt að slaka lítið eitt á í persónulegum áherslum en smíða í samvinnu við aðra (á grundvelli málamiðlunar) heildræna stefnu fyrir samfélag. Kosturinn við þetta er að kjósandi stendur þarna frammi fyrir tiltölulega skýrum valkosti og hefur úr tiltölulega fáum en tiltölulega heildstæðum valkostum að velja. Það er að segja valkostum sem ná yfir flest helstu úrlausnarefni þjóðmála á hverjum tíma. Að endingu verða svo ólíkir hópar að miðla málum sín á milli til þess að komast að ákveðinni niðurstöðu um stefnu sem hrinda má í framkvæmd.

Það verður aldrei hjá því komist að miðla málum. Það þurfa persónukjörnir fulltrúar líka að gera. Þeir koma til með að þurfa að gefa eftir í einu samhengi til þess að hugmyndir þeirra verði ofan á í öðru.

Vandamálið við persónukjör er að þetta ferli málamiðlunar verður ófyrirsjáanlegt. Ef miðað er við ítrustu útfærslu á persónukjöri (líkt og á við um kjör til stjórnlagaþings nú), þyrftu tugir einstaklinga, sem allir hafa sínar eigin áherslur (og sumir e.t.v. mjög afmarkaðar áherslur) að komast að málamiðlun. Að líkindum yrði að mynda nýjan "meirihluta" um öll mál sem afgreiða þarf. Það væri flókið verk, ófyrirsjáanlegt og óskilvirkt í samanburði við fyrirkomulag þar sem hinar breiðu línur hafa þegar verið dregnar af stjórnmálahreyfingum.

Það verður ekki komist að málamiðlun á "heiðarleikanum" einum saman né heldur með því að standa óbifanlega á tiltekinni skoðun. Siðferðisleg sjálfsupphafning,sjálfbirgingur og þvermóðska standa ekkert síður í vegi fyrir heilbrigðri stjórnmálamenningu en þröngsýnt ægivald flokksleiðtoga.

Að mínu mati er engum vafa undirorpið að stjórnmálamenning á Íslandi hefur verið á fremur lágu plani. En umbætur þar að lútandi eru fyrst og fremst fólgnar í hugarfarslegri breytingu ekki form- eða kerfislegri. Sú hugarfarsbreyting þarf að ná langt út fyrir svið stjórnmálanna í þröngum skilningi. Hún þarf að eiga sér stað í fjölmiðlun og samfélagsumræðu eða samfélagsupplifun almennt. Persónukjör hefur þar ákaflega lítið að segja.

Sannleikurinn er vísast sá að dugandi fólk á að geta staðið röggsamlega á skoðunum sínum og sannfært aðra um ágæti þeirra hvort heldur sem er, innan vébanda stjórnmálahreyfingar eða sem einstaklingar. Að sama skapi á fólk, sem gætt er góðri dómgreind, að kunna að gefa eftir eða milda sínar áherslur eftir atvikum til þess að komast að farsælli málamiðlun. Að mínu mati er annar hátturinn tiltölulega einfaldur, skilvirkur og skýr á meðan hinn er fremur óútreiknanlegur, óljós og jafnvel glundroðakenndur.






Skoðun

Sjá meira


×