Skoðun

Ótti við breytingar

Hér langar mig að fjalla um fanga með einangrun, refsingu og betrun í huga. Þegar ég var með vikuleg sjálfstyrktarnámskeið á Litla-Hrauni 2008-2009 þá ræddi ég við fjölda einstaklinga sem þar afplánuðu. Fékk ég einhverja innsýn inni í aðstæður þeirra en að auki fékk ég aðra sýn á fangelsismál en almenningur hefur almennt.

Sem starfandi heilari með mikinn áhuga á mannlegum samskiptum og velferð fólks sem og heilsu þess fór ég af stað með námskeiðin á Litla-Hrauni. Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í eða hvernig mundi takast til með námskeiðin. Í samtali við sálfræðing Litla-Hrauns og starfsmann á skrifstofu var mér tjáð, eftir lýsingar mínar á námskeiðinu að mikil þörf væri á slíku námskeiði fyrir fanga. Var mér líka sagt að yfirleitt væri lítil þátttaka á þau námskeið sem boðið væri upp á og sem færi yfirleitt minnkandi eftir því sem liði á námskeiðið. Allt stóðst þetta.

Ég hef mikið velt fyrir mér orkunni sem mismunandi hópar eyða í einstaklinga sem eru fangar. Miðað við menntakerfið virðist lítil orka til staðar til að grípa, með uppbyggjandi hætti, inn í líf barna/unglinga þegar ljóst þykir að stefnir í óefni. Barnavernd og lögregla koma þá einnig að í flestum tilvikum en þar byrjar refsikerfið að virka. Miklum tíma er eytt í að reyna að kæfa og bæla niður neikvæða líðan, hugsanagang, tal og hegðun. Þegar það ekki dugar og stefnir í enn frekari óefni hjá einstaklingi sem svo brýtur af sér kemur yfirleitt almenningur inn í af fullum krafti með yfirlýsingar um lengd fangelsisvistar.

Nú er komin fram raunveruleg ástæða til að taka á þessum einstaklingum og refsa þeim réttilega miðað við brot þeirra. En hvað gerist svo? Einstaklingarnir virðast gleymast um tíma þar til þeir koma aftur út. Allan þann tíma frá því þeir voru krakkar þar til í dag, hafa hóparnir sem að þeim komu með beinum og óbeinum hætti eytt tíma og orku í að sinna EKKI þessum einstaklingum eins og hefði þurft. Þegar þeir losna úr afplánun er aftur næg orka til staðar til að grafa þá uppi, skrifa og fjalla um þá með ýmsum hætti, jafnvel gera almenningi viðvart um hvar þeir halda til.

Hvernig stendur á því að svo lítið fór fyrir jákvæðri orku sem byggir á þolinmæði, trú og náungakærleika á uppvaxtarárum þessara einstaklinga? Allt í einu í fangelsinu gera sérfræðingar og starfsfólk sér grein fyrir vanlíðan, fíknarástandi, þunglyndi o.fl. sem margir fangar glíma við. Af hverju ná sérfræðingar menntakerfisins, barnaverndar og lögreglu ekki að snúa dæminu við áður en einstaklingar lenda í fangelsi? Af hverju er kerfið máttvana þar til hægt er að refsa, og hefur þá bæði orku og peninga til að grípa inn í ástandið?

Breytingar geta eingöngu átt sér stað ef einhver þorir að gera þær. Engar breytingar eiga sér stað þar sem óttinn kraumar. Því liggur frekar ljóst fyrir að hóparnir sem hindra að breytingar eigi sér stað eða forðast breytingar, eru óttaslegnir.

Hvað óttast fangar, hvað óttast aðstandendur, hvað óttast Fangelsismálastofnun, hvað óttast almenningur, hvað óttast menntakerfið, barnavernd og lögreglan? Samhliða ótta verða menn að halda andlitinu og því eru fæstir tilbúnir að viðurkenna að þeir óttist eitthvað. Sameiginlegt vandamál hrjáir alla hópana - það sem menn þekkja veitir öryggi, sama hversu neikvætt það er, því við vitum hvað gerist, hvenær og hvernig.

Kynning á námskeiði fyrir einstaklinga sem bíða afplánunar eða hafa lokið afplánun og þora að mæta verður haldinn í Síðumúla 35, 2. hæð, kl.18.00, fimmtudaginn 22. júlí. Verið velkomin.

Þeim sem vilja auka velferð fólks í samfélaginu, hvort sem er þeirra eigin og/eða annarra, er bent á Kærleikssamtökin, www.kaerleikssamtokin.com til að leggja þeim lið á þann hátt sem hver og einn er fær um eða bara til að njóta þess sem þar er boðið upp á. Kærleikssamtökin eru með nytsamlegt úrræði í boði fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Einnig er bent á síðustu grein mína, „Fangelsismál á Íslandi - hvert stefnir?", sem hægt er að lesa á heimasíðu samtakanna.




Skoðun

Sjá meira


×