Skoðun

Dagur sjálfboðaliða

Ólafur E. Rafnsson skrifar

Í dag er dagur sjálfboðaliða - hóps sem býsna stór hluti þjóðarinnar tilheyrir. Þessi lítt skilgreindi hópur í samfélaginu gengur þvert á allar starfs- og menntunarstéttir, og nær til allra aldurshópa. Þessi hópur er ekki hávær, á sér fáa talsmenn, en vinnur engu að síður stórlega vanmetin verk í þágu samfélagsins.

Íþróttahreyfingin er að stofni til byggð á fórnfýsi og framlagi sjálfboðaliða. Þetta vill gjarnan gleymast þegar fjallað er um starfsemi íþróttahreyfingarinnar, og stærsti hluti umfjöllunar tekur mið af örlitlum hluta í efsta lagi pýramídans. Raunar er það svo að áætlað er að allt að 25-30 þúsund Íslendingar sinni sjálfboðaliðastörfum í þágu íþróttahreyfingarinnar - í mismiklum mæli þó.

Í þessu felast umtalsverð fjárhagsleg verðmæti sem telja milljarða króna - og má ætla framlagðar vinnustundir fleiri en í sumum atvinnugreinum hérlendis. Eru þá ótalin þau miklu verðmæti sem felast í menntun, gildum og viðhorfi sem fylgir því að starfa í sjálfboðavinnu. Líklega hefur okkur sjaldan verið jafn mikilvægt að leggja áherslu á þau gildi að leggja eitthvað til baka til samfélagsins.

Því miður nýtur sjálfboðaliðastarf ekki ávallt viðeigandi virðingar - þó vissulega megi finna ánægjuleg dæmi þess að t.d. vinnuveitendur leggi í ríkari mæli áherslu á þann samfélagslega þroska sem slíkum störfum fylgja, auk þeirrar félagslegu reynslu sem starfsmenn öðlast. Fyrirtæki sem eru stolt af félagsstörfum og sjálfboðaliðastarfi sinna starfsmanna eru að mínu mati líklegri til að hafa góðan starfsanda og þar með aukna framleiðni.

Fyrirtækjum sem hlúa að samfélagslegu sjálfboðastarfi starfsmanna sinna ber að hampa. Sjálfboðastörf í þágu t.d. íþróttafélaga, hjálparstofnana og björgunarsveita mættu án efa hafa meira vægi í rekstrarlegu umhverfi fyrirtækja - og út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við að skattaleg umbun fylgi því að fyrirtæki hvetji starfsmenn sína til slíkra verkefna, enda felur það í sér stuðning fyrir samfélagið og hefur margföldunaráhrif fyrir þjóðina.

Ég vil færa öllum sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar þakkir fyrir ómetanlegt framlag, og vil hvetja alla landsmenn til þess að kynna sér hvað er í boði að því er varðar sjálfboðaliðastörf í íþróttum - ekki síst kröftug og metnaðarfull ungmenni. Slík störf eru gefandi í góðum félagsskap samherja, fela í sér fjölbreytta og lærdómsríka reynslu af félagsstörfum, og skapa ánægju samhliða verðmætu framlagi til samfélagsins.








Skoðun

Sjá meira


×