Innlent

Um 40% Norðurlandabúa vilja sambandsríki

Heimir Már Pétursson skrifar
Ríflega fjörutíu prósent Norðurlandabúa eru jákvæðir fyrir því að stofnað verði sameiginlegt norrænt sambandsríki en tæplega sextíu prósent eru því andvígir. Þessi mál verða rædd á norðurlandaráðsþingi sem hefst í Reykjavík á morgun.

Nokkur umræða hefur verið um það að undanförnu hvort Norðurlöndin ættu að efla samstarf sitt og jafnvel ganga svo langt að stofna norrænt sambandsríki með sameiginlegum þjóðhöfðingja. Greiningarfyrirtækið Oxford Research kannaði hug íbúa Norðurlandanna til hugmyndarinnar, í aðdraganda bókar sænska sagnfræðingsins Gunnars Wetterbergs, Sambandsríkið Norðurlönd, sem kemur út á morgun. En Wetterberg vakti athygli í fyrra með hugmyndum sínum um endurreisn Kalmarssambandsins með Margréti Þórhildi Danadrottningu sem sameiginlega þjóðhöfðingja Norðurlandanna.

Í könnuninni segjast 42 prósent Norðurlandabúa jákvæðir eða mjög jákvæðir í afstöðu sinni til sameiningar norrænu ríkjanna. Þessi hluti telur það auka líkur á velferð í framtíðinni og auka áhrif Norðurlandanna á alþjóðavettvangi. Hins vegar eru 40 prósent neikvæðir í afstöðu sinni og 18 prósent mjög neikvæðir gangvart hugmyndinni, vegna þess að það muni koma niður á nærlýðræðinu og sjálsmynd þjóðanna.

Hvað sem hugmyndum um sambandsríki varðar, þá eru 78 prósent íbúa Norðurlandanna ánægðir með norrænt samstarf og 56 prósent íbúanna vilja efla það.

Þing Norðurlandaráðs hefst formlega í Reykjavík á þriðjudag en strax á morgun funda pólitísk flokkabandalög sambandsins í borginni til að undirbúa þingið, sem á sjöunda hundrað erlendra gesta sækja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×