Innlent

Ósammála um líkur á eldgosi

Lóa Pind Aldísardóttir. skrifar
Hlaupið úr Grímsvötnum í Vatnajökli ofan í Gígjukvísl óx í gær á miklu meiri hraða en mælingamenn höfðu átt von á.
Hlaupið úr Grímsvötnum í Vatnajökli ofan í Gígjukvísl óx í gær á miklu meiri hraða en mælingamenn höfðu átt von á. Mynd: Lóa Pind

Jarðvísindamenn eru ekki á einu máli um hvort eldgos gæti verið í aðsigi Grímsvötnum. Jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands segir engin bráðamerki um að gos sé að hefjast í Vatnajökli á næstu dögum eða vikum. Rennslið í Gígjukvísl hefur tvöfaldast síðan í gærkvöldi - en ekki þrefaldast eins og menn bjuggust við.

Hlaupið úr Grímsvötnum í Vatnajökli ofan í Gígjukvísl óx í gær á miklu meiri hraða en mælingamenn höfðu átt von á. Rennslið í gærkvöldi var fjórfalt meira en á sunnudaginn. Fréttastofa náði sambandi við Gunnar Sigurðsson vatnamælingamann Veðurstofunnar nú laust fyrir hádegi. Hann var þá rétt að ljúka við að reikna út rennslið í ánni eftir mælingar morgunsins.

Gunnar bendir á að rennsli í ánni hafi samt tvöfaldast síðan í gærkvöldi - en miðað við vöxtinn í gær hefði mátt búast við þrefalt meira rennsli.

Þá hafa stöku jakar verið að berast niður ána í dag, - en enginn hefur valdið tjóni eins og jakinn sem lenti á háspennumastri út í miðri ánni síðdegis í gær.

Almannavarnir lýstu í gær yfir óvissustigi, sem er lægsta háskastig Almannavarna og þýðir að grannt sé fylgst með framvindu mála.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sagði í samtali við fréttastofu í gær að ótrúleg líkindi væru milli óróans sem var í Vatnajökli fram að gosinu í Grímsvötnum árið 2004 - og óróans sem þar væri núna. Árið 2004 gaus í Grímsvötnum fimm sólarhringum eftir að seytla tók úr vötnunum niður í Skeiðará. Hann taldi því talsverðar líkur á að gos færi að hefjast.

Einar Kjartansson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, er hins vegar efins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×