Erlent

Ákærður fyrir að verða veiðimanni að bana með flugvélahreyfli

Bryan Griffiths á smáflugunni sem varð veiðimanninum að bana.
Bryan Griffiths á smáflugunni sem varð veiðimanninum að bana.

Réttað var yfir Bryan Griffiths í dag í Birmingham í Bretlandi en hann hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Fyrir um ári síðan varð hann veiðimanninum Trevor Morse að bana við heldur undarlegar aðstæður. Hreyfill í smáflugvél sem Bryan stjórnaði fór í höfuðið á Morse og klauf það í sundur.

Málið þykir mjög sérstætt en samkvæmt The Daily Telegraph þá átti atvikið sér stað á flugvelli nærri veiðilandi þar sem Morse hafði verið á veiðum. Bryan hafði flogið fyrir ofan Morse og fleiri veiðimenn ásamt myndatökumanni sem tók upp veiðarnar. Sjálfur er Bryan dýraverndunarsinni.

Þegar Bryan lenti vélinni á flugvellinum ók Morse ásamt félaga sínum inn á flugbrautina og reyndi að koma í veg fyrir að Bryan tæki á loft á ný. Bryan virti hann að vettugi og er sakaður um að hafa ekið faratækinu glannalega að Morse með þeim afleiðingum að hann fékk hreyfilinn í höfuðið og lést þar með samstundis.

Sjálfur neitar Morse að hann hafi orðið manninum að bana af gáleysi og ber við sjálfsvörn. Til er myndband af atvikinu og var það sýnt í réttasalnum. Það þykir hinsvegar ekki ríma við málflutning Bryans.

Nokkur rígur hefur verið á milli breskra veiðimanna og dýraverndunarsinna sem mótmæla veiðunum af hörku. Ekki eru þó til fordæmi um að hópunum hafi lent saman með ofbeldisfullum hætti þar til nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×