Innlent

Auðvelda aðgang að opinberum gögnum

Upplýsingalögin ná til fyrirtækja í eigu opinberra aðila, nái breytingar á þeim fram að ganga. Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur myndu þá falla undir lögin. fréttablaðið/anton
Upplýsingalögin ná til fyrirtækja í eigu opinberra aðila, nái breytingar á þeim fram að ganga. Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur myndu þá falla undir lögin. fréttablaðið/anton
Gera á almenningi auðveldara en nú er að óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum, samkvæmt drögum að breytingum á upplýsingalögum.

Lögin tóku gildi árið 1997. Með þeim er almenningi tryggður réttur til aðgangs að upplýsingum hjá stjórnvöldum og hefur reynslan sýnt að þau hafa falið í sér umtalsverða réttarbót.

Ríkisstjórnin taldi rétt að láta endurskoða lögin. Bæði hefði umfang stjórnsýslunnar aukist og breytingar orðið á umhverfi hennar, meðal annars vegna tækniframfara. Þá hefðu kröfur almennings til aðgangs að upplýsingum um opinber málefni aukist.

Liður í því að auðvelda aðgengi fólks að upplýsingum er að slaka á kröfum um tilgreiningu á máli. Felst breytingin í því að viðkomandi getur tilgreint það málefni sem hann óskar að kynna sér en mun ekki þurfa að tilgreina það með nákvæmum hætti. „Sú skylda verður að meginstefnu til lögð á stjórnvöld að finna þau mál sem efnislega falla undir það málefni sem tilgreint er í beiðni um aðgang,“ segir í greinar­gerð með frumvarpsdrögunum.

Sú breyting er líka gerð að upplýsingalög eiga að ná til fleiri aðila en nú er. Á það við um fyrirtæki sem eru í eigu hins opinbera að 75 prósentum hluta eða meira. Á það til dæmis við um Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, RARIK og fleiri, eftir því sem fram kemur í frumvarpinu.

Undanþágur verða þó á þessu. Þannig eiga upplýsingalög ekki að ná til þeirra sem fengið hafa eða sótt hafa um skráningu í kauphöll. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að á slíkum fyrirtækjum hvílir þegar rík skylda til að veita upplýsingar um starfsemi sína. Þá er áfram byggt á þeirri reglu að vegna samkeppnishagsmuna sé heimilt að undanþiggja ýmsar upplýsingar aðgangsrétti almennings.

Endurskoðun laganna önnuðust Trausti Fannar Valsson, lektor við Háskóla Íslands, Margrét Vala Kristjánsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, og Þórhallur Vilhjálmsson, yfirlögfræðingur Alþingis.

bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×