Erlent

Vinsælli en Churchill

Fyrir kappræðurnar í síðustu viku. Nick Clegg, David Cameron leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherrann Gordon Brown sem leiðir Verkamannaflokkinn. Mynd/AP
Fyrir kappræðurnar í síðustu viku. Nick Clegg, David Cameron leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherrann Gordon Brown sem leiðir Verkamannaflokkinn. Mynd/AP
Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata á Bretlandi, er vinsælasti stjórnmálamaður Bretlands þessa dagana. Samkvæmt skoðanakönnun dagblaðsins Sunday Times nýtur hann auk þess meiri vinsælda en Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra, gerði árið 1945.

Stutt er síðan að fáir vissu hver Clegg væri en sjónvarpskappræður leiðtoga þriggja stærstu stjórnmálaflokkanna í síðustu viku hafa breytt því. Í þeim þótti Clegg standa sig best. Forystumenn Íhaldsflokksins eru sagðir sjá mjög eftir því að hafa samþykkt að taka þátt í kappræðunum en þetta er í fyrsta sinn í breskri sögu sem þessi háttur er hafður á.

Bretar ganga að kjörborðinu 6. maí en í millitíðinni fara fram tvennar kappræður til viðbótar.

Þá sýna skoðanakannanir að fylgi Frjálslyndra demókrata hefur aukist mikið undanfarna daga. Litlu munar á stóru flokknum þremur. Íhaldsflokkurinn mælist þó í flestum könnunum stærstur. Samkvæmt skoðanakönnun Sunday Times er Íhaldsflokkurinn með 33% fylgi, Verkamannaflokkurinn 30% og flokkur Clegg 29%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×