Erlent

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar sigrar í Úkraínu

Viktor Janukovitsj í gær. Mynd/AP
Viktor Janukovitsj í gær. Mynd/AP
Allt lítur út fyrir að Viktor Janukovitsj, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Úkraínu og fyrrverandi forsætisráðherra, hafi sigrað í síðari umferð forsetakosninganna sem fram fóru í landinu í gær.

Þegar rúmlega 70% atkvæða hafa verið talin hefur Janukovitsj fjögurra prósenta forskot á mótherja sinn Júlíu Tímósjenkó, forsætisráðherra. Útgönguspár bentu til þess að Janukovitsj myndi sigra með allt að tíu prósenta mun.

Tímósjenkó viðurkennir ekki sigur mótherja síns og sakar hann um kosningasvik. Hún hefur jafnframt hótað að boða til mótmælaaðgerða - og er allt eins búist við að þær aðgerðir hefjist strax í dag. Sjálfur segir Janukovitsj nýjan kafla vera að hefjast í sögu Úkraínu. Hann telur réttast að Tímósjenkó viðurkenni úrslitin og láti nú þegar af embætti forsætisráðherra.

Janukovitsj var kjörin forseti í árslok 2004 en andstæðingur hans Viktor Júsjenko og alþjóðlegir eftirlitsaðilar vefengdu úrslitin og við tók stjórnarkreppa. Fjöldi Úkraínumanna mótmæltu undir merkjum appelsínugulu byltingarinnar svokölluðu sem Júsjenko og Tímósjenkó leiddu. Í kjölfarið var Júsjenko lýstur sigurvegari kosninganna og tók hann við sem forseti í ársbyrjun 2005.

Síðan þá hefur mikið gengið á í Úkraínu og þær breytingar sem leiðtogar appelsínugulu byltingarinnar boðuðu gengið hægt. Auk þess slitnaði fljótlega upp úr samstarfi Júsjenko og Tímósjenkó sem varð forsætisráðherra. Síðan þá hefur efnahagur Úkraínu versnað og er landið nú eitt það fátækasta í Evrópu og þá hefur gengið afar illa að uppræta spillingu innan stjórnkerfisins. Um leið hefur tiltrú almennings á Júsjenko og Tímósjenkó minnkað og vinsældir Janukovitsj aukist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×