Skoðun

Samkeppnishömlum í rækjuútgerð aflétt

Finnbogi Vikar skrifar
Ákvörðun Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að heimila frjálsar veiðar á úthafsrækju er góð ákvörðun sem ætti að koma þjóðarbúinu vel og skapa fjölda starfa með litlum tilkostnaði fyrir íslenska ríkið, ólíkt mörgum öðrum verkefnum sem eru í farvatninu. Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins ættu samkvæmt öllu eðlilegu að aukast við þessa ákvörðun þar sem núna koma inn tekjur af áður vanýttri auðlind ef útgerðir sjá sér fært um að nýta sér tækifærið sem felst í frjálsri rækjuveiði, sem verður væntanlega stýrt með sóknarstýringu að einhverju marki.

Stjórnvöld eru með þessari ákvörðun að lýsa því yfir að ekki verði liðið að kvóti sem útgefin er í einstökum tegundum sé nánast eingöngu fénýttur til að auka framsalsheimildir í öðrum tegundum í hagnaðarskyni fyrir kvótahafann en þjóðarbúið verður á sama tíma af gjaldeyristekjum. En slík ráðstöfun hefur viðgengist með úthafsrækjukvótann svo árum skiptir. Þegar úthafsrækjukvótinn er ekki lengur til staðar minnka möguleikar útgerðar að leigja frá sér kvóta í öðrum tegundum og þar með að fénýta heildarkvótann með öðrum hætti en að veiða kvótann.

Leiguliðar með kvótalausar og kvótalitlar útgerðir munu hagnast aðallega á þessari ákvörðun vegna þess að núna er einokun rækjuvinnsla innan raða LÍÚ sem ráða yfir úthafsrækjukvóta afnuminn og frjáls samkeppni ríkir því á milli rækjuvinnsla um hráefni til vinnslu þar sem rækjuvinnslur standa nú jafnfætis í samkeppni um hráefnið. Það kemur úthafsrækjuútgerðum til góða því aflinn er seldur hæstbjóðanda en ekki landað beint til kvótahafans á verði sem ákveðið er nánast einhliða af kvótahafanum þannig að útgerðaraðilinn (þ.e. leiguliðinn) fær ekkert upp úr krafsinu nema ánægjuna af því að vinna og rækjuvinnslan sem eru handhafi kvótans og valdsins hefur fengið allan hagnaðinn fram að þessu.

Ákvörðun Jóns Bjarnasonar hefur þau áhrif að sjómenn verða ekki lengur tilneyddir ólöglega til að taka þátt í að greiða fyrir kvótaleigu í úthafsrækjuveiðum þar sem þörfin fyrir kvótaleigu er ekki lengur til staðar hafi það átt sér stað.

Frelsi í úthafsrækjuveiðum er fyrst og fremst stór pólitísk yfirlýsing um að kvótinn sé ekki einkaeign LÍÚ fyrirtækja. Þessi ákvörðun er fordæmis gefandi fyrir fleiri tegundir sem hafa verið vannýttar á undanförnum árum og notaðar í tegundatilfærslur, auk þess mætti þessi ákvörðun ná til svokallaðra meðaflategunda. Jón Bjarnason, ráðherra, er að senda núverandi handhöfum kvótans í LÍÚ skýr skilaboð. Kvótinn er ekki varanleg einkaeign þeirra og ef útgerðarmenn innan LÍÚ nýta ekki kvótann þá eru forréttindi þeirra til atvinnu af úthafsrækjuveiðum afnuminn með einu pennastriki.




Skoðun

Sjá meira


×