Skoðun

„Þess í stað…“

Ragnhildur Sverrisdóttir skrifar
Í grein í Fréttablaðinu í gær, föstudag, um Björgólf Thor Björgólfsson og fjárfestingar hans er m.a. fjallað um kaup eignarhaldsfélagsins Samson á Landsbankanum. Þar vísar blaðamaður til þeirra raka stjórnmálamanna að Björgólfsfeðgar kæmu með peninga til landsins. Í greininni er því hins vegar bætt við að „þess í stað“ hafi þeir fengið lán hjá Búnaðarbankanum fyrir kaupunum.

Margsinnis hefur komið fram að greiðslan og lánið voru í fullu samræmi við kaupsamning íslenska ríkisins og Samsonar sem undirritaður var 31. desember 2002. Í þeim samningi setti seljandi, íslenska ríkið, engin skilyrði um hvar kaupandi gæti tekið lán fyrir hluta kaupanna. Hins vegar var gerð krafa um að eigið fé kaupanda væri ekki lægra en 35%. Samson greiddi fyrir 45,8% hlut sinn í Landsbanka Íslands hf. eins og hér segir:

- Í febrúar 2003 greiddu eigendur með eigin fé erlendis frá 48,1 milljón bandaríkjadala.

- Í apríl 2003 greiddu eigendur 48,3 milljónir bandaríkjadala með láni frá Búnaðarbanka Íslands hf.

- Í desember 2003 greiddu eigendur með eigin fé erlendis frá 42,7 milljónir bandaríkjadala.

Heildargreiðslur námu samtals 139,0 milljónum bandaríkjadala, þar af voru 90,8 milljónir fjármagnaðar af eigendum eða 65%. Þær voru greiddar að fullu inn á reikning ríkissjóðs Íslands í Seðlabanka Bandaríkjanna í New York í árslok 2003 og átti þá sér stað fullnaðaruppgjör vegna kaupa Samsonar á hlut ríkisins í Landsbankanum. Lánið í Búnaðarbankanum var greitt að fullu upp snemma árs 2005, eins og sýnt hefur verið fram á með gögnum. Svo öðru sé haldið til haga, sem sífellt er ranglega farið með í þessu sambandi: Samson tók annað lán í bankanum, sem þá var orðinn einkabankinn Kaupþing, í árslok 2005. Björgólfur Thor og faðir hans voru í persónulegum ábyrgðum fyrir því. Það lán var ógreitt við fall bankanna, en hefur nú verið gert upp sem hluti af skuldauppgjöri Björgólfs Thors.

Eins og þessi upprifjun sýnir fram á, þá fer því afskaplega fjarri að kaupin hafi verið fjármögnuð með láni frá Búnaðarbanka og Samson ekki flutt fé til landsins. Nú er tími til kominn að þessi síendurtekna vitleysa hverfi úr fréttaflutningi af málinu.

Annað sem nefnt er í greininni er að Björgólfur Thor hafi undanfarið verið milli tannanna á fólki vegna „tæplega helmings hlutar hans í Verne Holding“. Fyrir margt löngu kom fram, að Björgólfur Thor á engan helmingshlut þarna lengur. Fjárfestingarfélag hans, Novator, stofnaði félagið með bandaríska fjárfestingarsjóðnum General Catalyst. Sá hlutur þynntist út vegna eignarhluta lykilstjórnenda og var um mitt ár í fyrra 38%. Í janúar sl. bættist breski góðgerðarsjóðurinn Wellcome Trust í hópinn og varð langstærstur hluthafa og þar með minnkaði hlutur þeirra sem fyrir voru verulega.

Vegna mikillar umræðu, jafnvel á sjálfri löggjafarsamkundunni, um að óeðlilegt væri að Björgólfur Thor nyti nokkurs konar fyrirgreiðslu í viðskiptum ákvað hann að afsala sér þeim ríkisstyrk sem felst í lögfestingu fjárfestingarsamning um gagnaverið Verne Global, að því er snertir fjárfestingarfélag hans. Novator fær því enga fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins vegna uppbyggingar gagnaversins, sem mun fjárfesta fyrir um 20 milljarða króna hér á landi fram til ársins 2013. Þá lýsti hann því jafnframt yfir að hann myndi ekki auka hlut sinn í félaginu eða taka leiðandi hlutverk við stjórn þess.



Skoðun

Sjá meira


×