Skoðun

„Vituð ér enn ...“

Sverrir Hermannsson skrifar
Í Morgunblaðinu 24. janúar 2002 birti þessi höfundur grein þar sem sagði m.a.: „Í annað sinn á rúmum mánuði hafa fulltrúar atvinnulífsins séð sig knúna til að draga ríkisstjórnina að fundarborði til að ræða viðbrögð við hinni háskalegu verðlagsþróun. Og enn á ný lofar ríkisstjórnin bót og betrun eftir að hafa nýlokið við að afgreiða bullandi þenslu-fjárlög á Alþingi fyrir árið 2002.

Að vonum spyrja menn í forundran: Hvernig má það vera að stjórn landsins láti sem ekkert sé, á háskafaldi nýrrar verðbólguöldu? Nærtækasta svarið er auðvitað að menn sem neita staðreyndum, og fullyrða að allt sé í stakasta lagi, eru ekki líklegir til lífsnauðsynlegra mótaðgerða. Þeir lifa í draumaheimi góðæris og stöðugleika, þar sem húsbóndinn málar glansmyndir á vegginn í sífellu.

En fulltrúar atvinnulífsins líta raunsæjum augum á ástandið og er óskandi að aðvörunarorð þeirra beri árangur. Hvaða dæmi er augljósast um óforsjálni og sjálfsblekkingu stjórnvalda?

Svarið er einfalt: Stjórnlaus hækkun á útgjaldahlið fjárlaga.

Hvert er það aðal tæki, sem stjórnvöld á hverjum tíma hafa til að beita gegn þenslu í þjóðfélaginu? Svar: Fjárlög hverju sinni. Enda hafa ríkisstofnanir eins og Þjóðhagsstofnun margsinnis bent á nauðsyn þess að draga saman seglin í útgjöldum ríkissjóðs.

Það er kannski ekki von til að álit þeirrar stofnunar sé tekið gilt; stofnunar, sem hótað var að leggja af, af því sem hún treysti sér ekki til að segja ósatt um stöðu efnahagsmála í þágu stjórnvalda, enda stangaðist álit hennar alveg á við góðæristal einvaldsins. Hins vegar ætti öllum öðrum að vera ljós knýjandi nauðsyn þess að standa fast á öllum bremsum í fjármálum, nema þá kannski aðalráðgjafanum, Hannesi Hólmsteini.

En, hvernig hafa stjórnvöld farið að ráði sínu við afgreiðslu fjárlaga?

Mörg undanfarin ár hafa stjórnarliðar aukið útgjöld fjárlaga langt umfram verðlagsþróun þrátt fyrir augljós þenslumerki. Tökum árið 2001 til athugunar: Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2001 hækkaði útgjaldahlið fjárlaga um 13,5% frá árinu 2000, eða um nærri tvöfalda verðlagsþróun. Þar við bættist að ráðherrar gengu þannig um fjárhirzlur ríkisins, að þeir eyddu á árinu nærri 15 milljörðum umfram heimildir fjárlaga og létu svo þjóna sína á þingi samþykkja óráðsíuna með fjáraukalögum. Og hækkun á útgjöldum ríkissjóðs nær 20% milli ára, sem er vitfirring.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár voru útgjöldin aukin töluvert umfram hækkun verðlags, sem þó hækkaði langt umfram þanþol búskaparins. Og þetta skeður á tímum þegar nauðsyn bar til að draga úr útgjöldum eftir megni.

Við þetta á svo eftir að bætast umframeyðsla ráðuneyta, því engum skal til hugar koma annað en að þau vinnubrögð verði áfram við lýði."

Það þarf svo sem ekki fleiri blöðum að fletta til að fullvissa sig um hverjir bera ábyrgð á þeim hamförum í íslenzkum efnahagsmálum sem yfir þjóðina hafa dunið. Enda verður þeim ekki fyrirgefið.




Skoðun

Sjá meira


×