Skoðun

Greiður aðgangur að heilsugæslu

Hrönn Håkansson og Ingrid Svensson skrifar

Í ljósi þess að mikið hefur borið á umræðu um læknaskort, flöskuhálsa í þjónustu heilsugæslustöðva og langan biðtíma til lækna á heilsugæslustöðvum undanfarið vill fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga minna á og upplýsa almenning um greiðan aðgang að þjónustu hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum.

Hjúkrunarvaktin tekur á móti erindum samdægurs sem ekki þola bið og veitir þjónusta við hæfi. Á hjúkrunarvaktinni er einnig boðið upp á símaráðgjöf þar sem veittar eru ráðleggingar, upplýsingar og leiðsögn um heilbrigðiskerfið. Hjúkrunarfræðingar á vakt sinna jafnframt bókaðri móttöku þar sem erindi sem flokkast undir heilsuvernd, ráðgjöf, forvarnir, lífsstíl og meðferð er sinnt.

Erindi sem leitað er með til hjúkrunarvaktarinnar eru margvísleg og úrlausnirnar að sama skapi líka. Algengt er að fólk leiti aðstoðar eða ráðgjafar þegar um er að ræða veikindi, vanlíðan, óþægindi, slys eða óljós einkenni. Til dæmis er algengt að foreldrar með lasin börn fái aðstoð við að meta ástandið.

Einnig leita margir ráða vegna lyfja eða vantar leiðbeiningar til að rata um heilbrigðiskerfið. Öllum erindum er sinnt, annaðhvort með því að veita þjónustuna á staðnum eða vísa í þann farveg sem við á í hverju tilviki.

Hjúkrunarvakt heilsugæslunnar er fjölbreytt, aðgengileg og hagkvæm heilbrigðisþjónusta á dagvinnutíma og leitast við að koma til móts við þarfir almennings.




Skoðun

Sjá meira


×