Lífið

Bræður í dansi og leik

Hinn heimsþekkti dansari Jorma Uotinen fer fremstur í bræðraflokknum á frumsýningu kvöldsins.  Fréttablaðið/Valli
Hinn heimsþekkti dansari Jorma Uotinen fer fremstur í bræðraflokknum á frumsýningu kvöldsins. Fréttablaðið/Valli

Í kvöld verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu nýtt dansverk eftir þær Ástrósu Gunnarsdóttur og Láru Stefánsdóttur sem þær kalla Bræður. Verkið kallast á við verk þeirra Systur sem þær unnu fyrir fáum misserum og vakti þá mikla athygli og fékk góða rannsókn. Sýningin er hluti af dagskrá Listahátíðar í Reykjavík.

Bræður er dansverk um karlmenn þar sem dans, leikur, tónar og sjónlist mætast með djörfum og kraftmiklum hætti. Í verkinu er hugarheimur og veruleiki karlmanna í fyrirrúmi, séður með augum karla og kvenna í gegnum gleði, svita og tár. Samskipti kynjanna og kynhlutverk eru sýnd í óvenjulegu og opinskáu samhengi þar sem meðal annars er fjallað um erjur og ástríður, trú og tungumál, sátt og sundurlyndi. Bræður er hugverk þeirra Ástrósar og Láru Stefánsdóttur og kölluðu þær til leikskáldið Hrafnhildi Hagalín þegar kom að fullvinnslu hugmynda fyrir svið. Útlit og búningar er í höndum Filippíu Elísdóttur og Ragnhildur Gísladóttur semur tónlist.

Það hefur löngum verið skortur á karldönsurum á Íslandi. Þeir hafa ríkari tilhneigingu til að leita úr landi og enn hefur Íslenska dansflokknum ekki tekist að koma sér upp ungum dönsurum þrátt fyrir merkilega og mikilvæga tilraun að leita í skóla eftir ungum mönnum sem kunni að vilja tjá sig í dansi. Það þarf því að leita víða til að manna stóran korpus karldansara hér á landi og verður að leita út fyrir landsteinana: Bræðurnir eru þeir Jorma Uotinen, Vinicius, Ívar Örn Sverrisson, Ívar Helgason, Aðalsteinn Kjartansson, Gunnlaugur Egilsson, Brian Gerke, Aðalsteinn Kjartansson, Karl Friðrik Hjaltason, Oddur Júlíusson, Sigurður Andrena Sigurgeirsson, Sveinn Breki Hróbjartsson og Viktor Leifsson. Þá dansa þær báðar í sýningunni, Ástrós og Lára.

Það er hópurinn Pars Pro Toto (PPT) sem stendur fyrir sýningunni en Lára Stefánsdóttur stofnaði hann fyrir fjölda ára. Þótt dansinn sé í forgrunni verkefna Pars Pro Toto þá leitar sköpunin í samruna ólíkra listgreina; dans, tónlist, myndlist, leiklist, kvikmynd, ritlist o.fl. PPT gerir forvitnilegar tilraunir með ný form, sýningar sem krefjast opins huga og skilningarvita frekar en lærðrar rökhugsunar, sýningar sem gera væntingar til áhorfandans um smíði nýrra og fordómalausra tenginga, að hann opni fyrir skilningarvitin og leyfi áhrifum sýninga að flæða inn í huga og líkama.

Dansverkið Bræður er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, Pars Pro Toto og Listahátíðar í Reykjavík og er styrkt af Leiklistarráði Íslands, menntamálaráðuneytinu og Reykjavíkurborg.

Aðeins tvær sýningar verða á verkinu, í kvöld og annað kvöld.

pbb@frettabladid.is

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.