Erlent

Eyjafjallajökull verður tæpast nafngjafi

Óli Tynes skrifar
Hvað heitirðu aftur?
Hvað heitirðu aftur? Mynd/Guðjón V. Andrésson.

Það eru fjölmörg dæmi um að nöfn manna eða fyrirbæra hafi fest sig í sessi í öllum heimsins tungumálum sem samheiti i fyrir eitthvað sérstakt. Sem dæmi má nefna Geysi sem er samheiti fyrir goshveri um allan heim.

Einnig má nefna Kvisling sem er samheiti fyrir föðurlandssvikara og er komið frá Vidkun Quisling sem var leppstjóri nazista í Noregi í síðari heimssytjöldinni.

Þá má nefna bresku lávarðana Cardigan og Sandwich. Cardigan gaf hnepptum peysum nafn og Sandwich gaf samlokum nafn, þótt hann hefði ekki fundið þær upp sjálfur.

Í breska blaðinu Economic Times er fjallað um Eyjafjallajökul sem hefur valdið meiri usla í heiminum en flest önnur náttúrufyrirbæri á síðari árum.

Economic Times finnst eðlilegt að Eyjafjallajökull verði samheiti yfir víðfeðmar náttúruhamfarir.

Blaðið telur þó ólíklegt að af því verði. Ástæðan er sú að það eru ekki nema um 320 þúsund manns í öllum heiminum sem geta borið fram þetta fjárans nafn. Og þeir búa allir á fjárans skerinu þar sem fjárans eldfjallið er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×