Skoðun

Lýðræðið er vinna

Þórunn M.J.H. Ólafsdóttir skrifar

Kæru íslendingar Fólk hefur talað um það eftir hrunið að hreinsa þurfi til og byggja upp nýtt Ísland. Stjórnlagaþingið er stór þáttur í þá átt og er ég tilbúin að leggja mitt að mörkum til þess.

Ég hvet alla landsmenn unga sem aldna og hafa kosningarétt að nýta sér hann. Það er okkar réttur og þannig virkar lýðræðið.

Sú hætta er fyrir hendi að nýtum við ekki þennan lýðræðislega rétt okkar til að kjósa muni alþingi síður taka mark á niðurstöðum stjórnlagaþings ef þáttaka í kosningunum verður dræm. Við viljum setja vilja þjóðarinnar í stjórnarskránna.

Við þessar kosningar verður notað nýtt kosningakerfi. Kerfið virðist flókið í fyrstu, en meira að segja ég er farin að skilja það.

Það má segja að þetta sé prósteinn fyrir persónukjör og gefur okkur tækifæri að nýta atkvæðið okkar til fulls.

Mínar tillögur um breytingar á stjórnarskránni eru þær helstar:

  • Það vantar ákvæði um ríkisstjórn, en fyrir eru ákvæði um ráðherra og þingmenn.
  • Tryggja að auðlindir séu í sameign þjóðarinnar og að stofnaður verði orku / auðlindasjóður í svipuðu formi og og norski olíusjóðurinn (den norska oliefond). Þá þannig t.d. að allt undir 2-3 metrum undir jörðu á samfélagið/ríkið. Jarðeigandinn fengi arð sem og forgang að allri þjónustu sem af því hlytist. Það sem liggur ofanjarðar tilheyrir landeiganda. Þannig yrði eignarétturinn virtur.
  • Að 48. grein verði skoðuð þannig að alþingismenn hafi þjóðarheill og þjóðarhagsmuni í fyrirrúmi. Ekki eingöngu eigin sannfæringu eins og stendur í greininni.
  • Rýmka reglur varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur.
  • Í 65. grein í mannréttindakaflanum „Að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillitts til kynferðis, trúarbragða o.s.fr., þarf að bæta inn í upptalninguna „vegna kynhneigðar".
  • Semja þarf siðferðiskafla inn í stjórnarskrána
  • Ákvæði um almannarétt almennings til ferðalaga og nýtingar.

Ég vil standa vörð um málskotsrétt forsetans þannig að 26. grein standi. Ég tel að það eigi að treysta þjóðkjörnum forseta til að meta það hvort gjá sé að myndast milli alþingis og þjóðar. Með synjun sinni til undirskriftar, sé staðfestingu viðkomandi laga vísað til þjóðarinnar til samþykkis eða synjunar. Það er lýðræðið í hnotskurn.

Ég vil að svo komnu máli ekki aðskilnað ríkis og kirkju, þannig að 62. grein standi en það ríkir trúfrelsi hér á landi. Við þurfum að hugsa um heildina. Kristni hefur verið samofin okkar menningu í rúm 1000 og hefur reynst okkur vel hingað til.Stjórnarskráin á að vera yfir dægurþras hafin. Hún á að vera til framtíðar, ekki bara fyrir líðandi stund.

Að lokum hvet ég landsmenn að kynna sér þá frambjóðendur sem hafa ákeðnar tillögur og stefnur varðandi breytingar á stjórnarskrá.

Stjórnarskráin okkar er gömul og gild og við eigum að vera stolt af henni, en það þarf samt sem áður að bæta við hana og lagfæra til að gera hana enn betri fyrir alla, unga sem aldna, konur og karla. Hún er okkar arfleið til framtíðar.






Skoðun

Sjá meira


×