Skoðun

Hvað vantar í stjórnarskrána - Umhverfi

Sigurbjörn Svavarsson skrifar

Ákvæði um gæði og vernd umhverfisins eiga að tryggja að þau verði óskert til óborinna kynslóða. Það er stór þáttur í grundvallar mannréttindum kynslóða framtíðarinnar. Ákvæði um umhverfisvernd hafs, lofts og lands eiga að vera skýr og ótvíræð á þann hátt að ekki megi menga þau á nokkurn hátt. Þessir umhverfisþættir eru forsenda fyrir tilvist og endurnýjun lífríkisins.

Hafið, lífríki þess og hafsbotn.

Hafið og hafsbotninn innan efnahagslögsögu landsins á að vera í eigu þjóðarinnar. Allri nýtingu gæða þess skal úthlutað gegn afgjaldi sem renni í ríkissjóð. Ákvæði verður að vera um að afnot þeirra sé byggð á vísindalegum grunni og sjálfbærni til að tryggja að besta þekking á hverjum tíma ráði nýtingu auðlinda þjóðarinnar.

Loft og vatn.

Andrúmsloft og vatn er forsenda lífs og grundvallarmannréttindi að hver maður hafi aðgang að þeim gæðum ómenguðum. Ákvæði um verndun þeirra verður að vera í stjórnarskrá til varnar lífríkinu. Spurning hvort setja eigi ákvæði um að vatnsveitur til almenninganota séu í eigu opinberra aðila. Slík stjórnarskrávarin ákvæði eru að koma inn í löggjöf nokkurra landa vegna misnotkunar og einkavæðingar vatnsréttinda.

Land og landsgæði.

Ákvæði um verndun gróðurs þarf að tryggja að framkvæmdir eða nýting þjóðlenda spilli ekki gróðurþekju lands eða vatnsforða.

Einnig þarf ákvæði í stjórnarskrá um eign og nýtingu þjóðlenda, þar með talin orkulinda með sama hætti og um auðlindir hafsins . Með er m.a styrktur lagagrunnur l. nr. 58/1998 um þjóðlendur, um eign og nýtingu þeirra.

Umhverfisvernd -Neytendavernd.

Á forsendu slíkra ákvæða hefur löggjafinn sterkan grunn fyrir verndunarlöggjöf.

Ákvæði um umhverfisvernd þurfa jafnhliða að taka til almennra umhverfissjónarmiða sem styrkja ákvæði laga m.a. um skipulagsmál og neytendamál.








Skoðun

Sjá meira


×