Skoðun

Ráðning forstjóra OR

Haraldur Flosi Tryggvason skrifar
Orkuveita Reykjavíkur er um margt sérstakt fyrirtæki. Hún var stofnuð með sérstökum lögum til að annast grunnþjónustu við almenning í sveitarfélögnunum sem að því stóðu. Á þeim grunni hóf sameignarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur starfsemi sína en hefur síðan þanið út vængi sína og rekur nú ýmsa starfsemi, svo sem orkuframleiðslu og gagnaveitu, á hreinum viðskiptalegum forsendum. Sameignarfyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur er því „opinbert" fyrirtæki í þeim skilningi að opinberir aðilar eiga það og stærsti hluti rekstursins er almannaþjónusta. Á hinn bóginn er fyrirtækinu jafnframt ætlað að stunda samkeppnisrekstur á viðskiptalegum grunni.

Einhver gæti ályktað að þetta fyrirkomulag rekstrar Orkuveitu Reykjavíkur fæli í sér þverstæðu þar sem um ósamrýmanleg markmið væri að ræða. Aðrir telja að þetta rekstrarform geti leitt til verulegrar hagkvæmni og þar með fært íbúum þeirra sveitarfélaga sem að rekstrinum standa umtalsverðar hagsbætur. Sjálfsagt eru fleiri sammála síðarnefnda sjónarmiðinu þegar vel árar en færri þegar reksturinn er þungur.

En hversvegna er þetta tíundað hér? Jú - starf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur var nýlega auglýst laust til umsóknar. Við undirbúning þess verks vöknuðu ýmsar spurningar um eðli og inntak starfsins sem og forsendur ráðningarinnar almennt, umfram það sem almennt gerist um slíkar ákvarðanir. Leiðir þetta af því umhverfi sem rekstrinum er búið og áður er lýst.

Það er ekki að undra að til svo snúins verkefnis þarf að vanda sérstaklega til ráðningar. Stjórn OR hefur í samstarfi við starfsfólk mótað gagnsætt og vandað ráðningarferli í leit sinni að reyndum leiðtoga sem hefur áhuga á að nýta hæfileika sína í þágu mikilvægrar almannaþjónustu. Nýr forstjóri þarf í senn að láta almannahagsmunina svífa yfir vötnum og berjast á samkeppnismarkaði; þjóna íbúum á sama tíma og keppt er við suma þeirra.

Það er von mín að hæfileikaríkt fólk, sem uppfyllir þær hæfniskröfur sem til umsækjenda eru gerðar, sjái ögrun við sitt hæfi í verkefni sem þessu, kynni sér starfið og sæki um.

 




Skoðun

Sjá meira


×