Erlent

Ástsjúkur eiturbyrlari

Óli Tynes skrifar

Sextán ára indverskur drengur hefur verið handtekinn fyrir að hella skordýraeitri í vatnsgeymi skóla síns til þess að hefna sín á nemendum sem honum fannst hafa niðurlægt sig.

Blaðið Times of India segir að drengnum hafi verið vikið tímabundið úr skólanum fyrir að ganga þar með grasið í skónum á eftir telpu sem hann nauðaði í að giftast sér.

Hann hafði ekki sinnt áminningum og þegar hann reyndi að klína fagurrauðum sinnóberjalit á enni hennar fyrir allra augum var hann rekinn.

Indverskar konur bera slíkan lit á enni sér til að sýna að þær séu giftar.

Drengnum fannst hann hafa verið niðurlægður. Og þegar telpan skráði hjónaband sitt á mánudaginn með manni sem fjölskyldan hafði valið handa henni, lét hann til skarar skríða.

Daginn eftir laumaðist hann inn í skólann og hellti skordýraeitrinu í vatnsgeyminn. Þar skildi hann svo eftir bréf í nafni föður telpunnar, þar sem sagði að eiturbrasið væri hefnd fyrir að skólinn hefði ekki verndað dótturina nógu vel.

Það komst þó strax upp um kauða og lögreglan tók hann í sína vörslu. Sem betur fór drakk aðeins einn nemandi vatn áður en þetta kom upp. Hann veiktist en er á batavegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×