Erlent

Um 30 þúsund klukkustundir hafa farið í Múhameðsmál

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nokkur blöð birtu eftirprentanir af Múhameðsteiknunum eftir að þær voru birtar í Jyllands Posten. Mynd/ AFP.
Nokkur blöð birtu eftirprentanir af Múhameðsteiknunum eftir að þær voru birtar í Jyllands Posten. Mynd/ AFP.
Lögreglan á Jótlandi í Danmörku hefur varið 30 þúsund klukkustundum í mál sem tengjast Múhameðsteikningunum. Talan samsvarar því að fjórir lögreglumenn hafi síðastliðin fimm ár einungis unnið að málum tengdum Múhameðsteikningunum, eftir því sem fram kemur í Århus Stiftstidende.

Nýjasta mál lögreglunnar af þessu tagi er árásin á Kurt Westergaard á heimili hans, en hann slapp naumlega úr klóm tilræðismannsins.

Að auki hefur lögreglan þurft að fást við sprengjuhótanir á skrifstofum Jyllands Posten í Árósum, hótanir gagnvart Kurt Westergaard og Flemming Rose, menningarritstjóra Jyllands Posten, og fleira.

„Þetta eru verkefni sem þarf að leysa. Þetta snýst um líf fólks og öryggi. Þess vegna þarf ekkert að ræða þetta mál. Síðasta atvik undirstrikar því miður að mikill öryggisviðbúnaður hefur reynst nauðsynlegur," segir Bent Preben Nielsen, hjá lögreglunni á austurhluta Jótlands, í samtali við Århus Stiftstidende.

Í þessum 30 þúsund klukkustundum er ekki innifalinn sá tími sem Greiningardeild lögreglunnar, PET, hefur unnið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×