Skoðun

The Inside Job

Óskar Jónasson skrifar

Er einhver leið til að skylda viðskipta- og verslunarfræðinemana okkar til að sjá heimildarmyndina The Inside Job? Eða bara alla þjóðina? Er kannski hægt að sýna hana í staðinn fyrir Hringekjuna á laugardagskvöldið? Því jafn kristaltæra og aðgengilega greiningu á aðdraganda hrunsins er vart hægt að hugsa sér. Og hún er skemmtileg í þokkabót.

Efnahagskerfi okkar er í ræsinu, en við eigum erfitt með að útskýra hvernig það gerðist nákvæmlega - og kannski enn erfiðara með að átta okkur á því hvernig við komum okkur út úr þessari klípu. Eitt er víst að ekki dugir að beita sömu aðferðum og komu okkur út í þetta. Í myndinni er varpað skýru ljósi á það hvernig regluverk bankakerfisins hefur hrunið á undanförnum árum og áratugum, hvernig eftirlitskerfið er komið undir sömu sæng og peningavaldið - og kannski ekki síst hvernig þessi þróun heldur óhindruð áfram. Margir af þeim sem voru ábyrgir fyrir því hvernig fór, eru nú einmitt komnir í áhrifamiklar stöður í ríkisstjórn Baracks Obama.

Meira að segja litla Ísland er tekið fyrir sem skólabókardæmi um hvað gerðist í hnotskurn. Í upphafi myndarinnar eru mjög athyglisverð viðtöl við Andra Snæ Magnason rithöfund og Gylfa Zoëga hagfræðing um katastrófuna sem átti sér stað hér á landi. Myndin The Inside Job í Bíó Paradís er fullkomin mynd fyrir þau okkar sem eru búin að fá upp í kok af tali um bankahrun. Því hún drekkir ekki áhorfandanum í hagfræðibullinu sem er oft notað til að þyrla upp ryki, heldur útskýrir á mjög einfaldan og aðgengilegan hátt hvernig við vorum rænd, Innanfrá.














Skoðun

Sjá meira


×