Lífið

Trommarar bestir í rúminu

Á Trommaranum 2010 verður meðal annars tilkynnt um úrslit í keppninni Leitin að Trommaranum.
Á Trommaranum 2010 verður meðal annars tilkynnt um úrslit í keppninni Leitin að Trommaranum.
Trommarasýning verður haldin í Reykjavík í október. Nonni kjuði í Diktu segir enga lognmollu í kringum trommara og þeir séu þekktir fyrir að vera rekkjunautar í hæsta gæðaflokki.

„Þetta eru hágæða einstaklingar. Það er aldrei nein lognmolla í kringum okkur," segir Nonni kjuði eða Jón Þór Sigurðsson, trommari Diktu, um trommuleikara almennt.

Sýningin Trommarinn 2010 verður haldin í annað sinn í sal FÍH 16. október og af því tilefni brugðu nokkrir trommarar á leik í Hljóðfærahúsinu fyrir ljósmyndara Fréttablaðsins. „Svo þurfum við að vera taktfastir og hafa úthald. Það er kannski ástæðan fyrir því að trommuleikarar eru umtalaðir sem A-klassa rekkjunautar. Það gæti verið eitthvert samansammerki þarna á milli," segir Nonni og hlær.

Hann útskýrir að trommarar láti oft sem þeir vilji vera á bak við tjöldin en raunin sé allt önnur. „Phil Collins, Dave Grohl og allir þessir karlar hafa sýnt okkur að á endanum komumst við fremst. Það er draumur allra trommuleikara, annaðhvort að færa trommusettið fremst eða að komast fremst á bak við míkrafóninn."

Nonni byrjaði sjálfur að tromma þegar hann var fjórtán ára en upphaflega vildi hann verða gítarleikari. „Bróðir minn átti trommusett og ætli það hafi ekki verið orsökin fyrir því að ég lærði eitthvað á þetta. Hann kenndi mér allt sem ég kann."

Á Trommaranum 2010 munu hljóðfæraverslanirnar Hljóðfærahúsið/Tónabúðin, Rín og Tónastöðin vera með allt það nýjasta í trommum og slagverki til sýnis. Íslenskir trommusmiðir munu sýna handverk sitt og hópur trommuleikara stígur á svið, þar á meðal Sigtryggur Baldursson, Ólafur Hólm og Kjuðinn.

Veitt verður viðurkenning fyrir ævistarf í þágu trommulistarinnar auk þess sem úrslit verða kynnt í keppninni Leitin að Trommaranum. Í þeirri keppni geta trommarar sent inn myndbönd af sér með kjuðana á lofti. Skilafrestur er til 6. október á netfangið trommarinn2010@trommarinn.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.