Handbolti

Alfreð: ég er ekkert búinn að kveikja á þessum árangri ennþá

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Alfreð á hliðarlínunni í gær.
Alfreð á hliðarlínunni í gær. GettyImages
Alfreð Gíslason bætti enn einum glæsiárangrinum á ferilskrá sína þegar hann stýrði Kiel til sigurs í Meistaradeild Evrópu í gær. Kiel vann Barcelona 36-34 í frábærum úrslitaleik í Köln. „Þetta er bara algjör snilld, þetta er stórkostlegur árangur“ sagði vígreifur Alfreð Gíslason við Fréttablaðið í gærkvöldi. „Ég hef ekki hugmynd um hvernig við fögnum þessu, en við ætlum svo sannarlega að fagna þessu verulega vel í kvöld. Það er ekki hægt að taka það af strákunum,“ sagði Alfreð. Aron Pálmarsson spilaði með Kiel í leiknum, þó ekki ýkja mikið og hann náði ekki að skora. Aron er á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku en hann átti mikinn þátt í titlinum. Auk þess að spila vel í Meistaradeildinni á tímabilinu gulltryggði hann sigur Kiel á Ciudad Real í undanúrslitunum á laugardaginn þegar hann skoraði síðasta markið rétt fyrir leikslok í 29-27 sigri. Sigurinn var einkar sætur fyrir Alfreð sem tapaði úrslitaleiknum í fyrra fyrir Ólafi Stefánssyni og þáverandi liðsfélögum hans í Ciudad Real. „Við vorum lengi að ná okkur á strik í leiknum. Við höfum verið að spila miklu erfiðari leiki undanfarið en þeir, höfum átt við meiðsli að stríða og við erum með minni hóp. Við komum okkur eiginlega ekki í gang í fyrri hálfleik og vörnin var slök,“ sagði Alfreð sem breytti svo um taktík í síðari hálfleiknum. „Ég ákvað að breyta í  5+1 vörn og taka Rutenka úr umferð. Þá náðum við okkur betur á strik í vörninni og við spiluðum alveg rosalega vel,“ sagði Alfreð sem var mjög óánægður með varnarleikinn í fyrri hálfleik þar sem Kiel fékk á sig 20 mörk. Staðan í hálfleik var 20-17 en eins og tölurnar gefa til kynna var vörn Kiel hriplek og Omeyer ekki upp á sitt besta í markinu. Þegar tíu mínútur voru búnar af seinni hálfleik var Barcelona sex mörkum yfir, 25-19. „Síðan skipti ég inn mönnum sem hafa ekki beint verið að spila   mikið undanfarið og þeir spiluðu allir vel. Thierry Omeyer hjálpaði okkur líka þegar hann fór að verja vel,“ sagði Alfreð. Kiel minnkaði muninn jafnt og þétt og jafnaði loks metin tíu mínútum fyrir leikslok. Það komst svo yfir og lét forystuna aldrei af hendi, en lokamínúturnar voru æsispennandi. Kiel tryggði sér að lokum tveggja marka sigur, 36-34. Algjör geðshræring ríkti eftir leikinn og þrátt fyrir að tala við Alfreð nokkuð eftir leikinn var eins og hann væri enn að ná sér niður. „Ég er ekkert búinn að kveikja á þessum árangri ennþá. Ég hef ekki getað hugsað um neitt annað en Barcelona í alltof langan tíma núna,“ sagði Alfreð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×