Skoðun

Málefni fatlaðra – ábyrgð á þjónustu til sveitarfélaga

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir skrifar

Fyrir alþingi liggur nú frumvarp um breytingar á lögum um málefni fatlaðra.  Lagaramminn kveður á um að ábyrgð á málaflokknum  færist yfir til sveitarfélaga 1.janúar n.k.  Unnið hefur verið að þessari stefnumótun allt frá ársbyrjun  2007 og var lokaskref þess undirbúnings, stigið þann 23.nóvember sl. með undirritun heildarsamkomulags ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu ábyrgðar á þjónustunni.

Meginmarkmið yfirfærslunnar er að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á almennri og sértækri félagsþjónustu  við fatlaða í heimabyggð og fella hana eins og framast er unnt að starfsemi annarra þjónustuaðila; færa þjónustuna nær notendum og auðvelda þannig aðgang að henni,  í öðrum orðum samþætta þjónustu innan laga um málefni fatlaðra m.a. félags- skóla og frístundaþjónustu sveitarfélaga. Meginforsenda þess að hægt sé að ástunda þessa hugmyndafræði er að þjónusta við fatlaða sé á ábyrgð sveitarfélaga.

Eðlilega setja notendur þjónustu, aðstandendur, hagsmunasamtök, starfsmenn, sveitarstjórnarfólk, alþingismenn og þeir sem láta sig þessa sértæku og mikilvægu þjónustu varða, spurningar fram og velta fyrir sér hvort verið sé að gera rétt og hvað breytingarnar hafa í för með sér.  Allar spurningar og vangaveltur eru til góðs, en ekki má láta efasemdir sem eðlilegar eru þegar verið er að taka svo stórar stjórnvaldsákvarðanir sem þessar,  birtast í formi neikvæðrar umræðu.  Umræðan á  að beinast að hverju hefur verið stefnt, og þeirri reynslu sem áunnist hefur hjá sveitarfélögum til margra ára.

Þetta segi ég vegna þess að hér á landi hefur byggst upp áralöng reynsla og þekking á að hafa ábyrgð á málefnum fatlaðra hjá sveitarfélögum og sporin hræða ekki. Akureyrarbær, Norðurþing, Sveitarfélagið Hornafjörður , Vestmannaeyjabær, og sveitarfélögin  á Norðurlandi vestra, hafa  síðustu 11-  15 ár verið með  ábyrgð á málefnum fatlaðra með þjónustusamningum við ríkið og unnið út frá  hugmyndafræði um heildstæða og samþætta nærþjónustu í heimabyggð.

Leiðarljós við uppbyggingu  þjónustu  við börn og fullorðna innan þessara sveitarfélaga hefur verið  að koma á sveigjanlegu og skilvirku skipulagi og persónulegri þjónustu innan félags- skóla- og frístundaþjónustu. Almennt má segja að reynslan hafi  verið góð og ekki hefur verið rætt um að fara til fyrra horfs og setja  á stofn Svæðisskrifstofur sem lagðar voru niður þegar sveitarfélögin tóku við þjónustunni.

Sveitarfélög eru að nálgast þetta nýja verkefni af metnaði og er undirbúningur á fullu en ljóst er að  1.janúar verður  ekki lokaskrefið stigið,  heldur fyrsti dagur í  langri vegferð til breytinga sem án efa mun hafa góð og skilvirk áhrif á alla nærþjónustu sveitarfélaga til langs tíma litið. Í  hnotskurn getum við sagt að nú eigi sér stað þjónustubylting á íslandi.

Ég fagna samkomulagi um flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaga  og hvet Alþingi til að  veita málinu skjóta og jákvæða afgreiðslu.  Markmið frumvarpsins eru skýr og tel ég hér vera gæfuspor fyrir notendur og veitendur þjónustunnar og mikilvæg  tímamót í þjónustuumhverfi  sveitarfélaga þar sem markmiðið er að þjónustan sé skilvirk og á ábyrgð fárra aðila, sérfræðiþekking fjölþætt og áhersla lögð á þverfagleg vinnubrögð.

Í því  efnahagaumhverfi sem við íslendingar búum við um þessar mundir er kallað til þess að fundnar verði leiðir  til að nýta fjármagn enn betur og ná fram hagræðingu með samvinnu til að viðhalda núverandi þjónustustigi.  Án efa munu sveitarfélög horfa til þess við undirbúning yfirfærslu málefna fatlaðra.

 




Skoðun

Sjá meira


×