Viðskipti innlent

Stærstu eigendur Byrs „misnotuðu aðstöðu sína“

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Formaður stofnfjáreigenda hjá Byr segir að risalán án veða til stærstu eigenda Byrs, sýni að stofnfjáraukningin frá árinu 2007 hafi verið blekking og að stærstu eigendurnir hafi misnotað aðstöðu sína. Byr þarf líklega að afskrifa þrettán milljarða vegna lána til eiganda og tengdra aðila.

Fréttastofa Rúv greindi frá því á föstudag að stærstu stofnfjáreigendur Byrs sparisjóðs og tengdir aðilar skulduðu sparisjóðnum sextán milljarða króna, samkvæmt lánabók. Búist er við að afskrifa þurfi þrettán milljarða vegna þessa, en í fæstum tilvikum er um persónulegar ábyrgðir að ræða.

Þrjú félög í eigu Þorsteins M. Jónssonar skulda fjóran og hálfan milljarð, en Þorsteinn átti tveggja prósenta hlut í Byr. Afskrifa þarf þessi lán að fullu. Félög tengd Jóni Þorsteini Jónssyni skulda þrjá milljarða, en Jón átti sex prósenta hlut í Byr. Hannes Smárason fékk milljarð hjá Byr og Stoðir, áður FL Group, þrjá milljarða króna. Þá skuldar Baugur sparsjóðnum fjóran og hálfan milljarð króna, en Baugur er gjaldþrota svo óvíst er að nokkuð fáist upp í kröfuna.

Sýnir þetta ekki að stærstu stofnfjáreigendurnir hafi notað sparisjóðinn sem nokkurs konar einkabanka? „Maður er hræddur um að stærstu stofnfjáreigendurnir hafi skarað eld að sinni köku og þar með misnotað aðstöðu sína."

Stofnfjáraukning fór fram í Byr árið 2007 upp á 29 milljarða króna. Þá lánaði Glitnir, sem var að stærstum hluta í eigu sömu aðila, tíu milljarða fyrir stofnfjáraukningunni.

„Markmið stofnfjáraukningarinnar var að styrkja rekstur og undirstöður Byrs, en maður er farinn að halda að þessir peningar hafi einungis átt að renna í það að búa til nýtt lánsfé fyrir stóra stofnfjáreigendur."

Er eitthvað sem réttlætir það að sparisjóðurinn hafi lánað stærstu stofnfjáreigendum og tengdum aðilum svona háar upphæðir án veða? „Þetta kom mér veruleg á óvart. Ég hélt að sparisjóðir störfuðu þannig að þeir lánuðu ekki peninga nema gegn tryggum veðum og helst sjálfskuldarábyrgðum," segir Eggert Þór.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×