Handbolti

Knudsen: Dómararnir voru lélegir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar

Michael Knudsen, leikmaður danska landsliðsins, var allt annað en sáttur við frammistöðu sænsku dómaranna í leik Íslands og Danmerkur í kvöld. Ísland vann leikinn, 27-22.

Knudsen sagði reyndar einnig að dönsku leikmennirnir hefðu sjálfir verið lélegir í leiknum í kvöld en ásakaði samt dómarana um að hafa dæmt mikið honum í óhag allan leikinn.

„Það kom mér gríðarlega á óvart hvað það voru dæmd mörg sóknarbrot. Ég stóð algerlega kyrr og þeir dæmdu ólöglega hindrun á mig.“

„Það er með ólíkindum að þeir skuli fá að dæma á þessu móti og þeir komast ekki langt hér í Austurríki.“

Hann sagði tapið vissulega mikil vonbrigði.

„Í svona móti þarf að spila toppleik í hvert skipti en það gerðum við ekki í dag. Það er afar óheppilegt að við skulum falla í þessa gryfju eftir góðan leik gegn Serbum.“

„En það er ekki allt glatað enn. Við þurfum að vinna Rússa og Norðmenn í næstu tveimur leikjum og vonandi verða Króatar þegar búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitunum þegar við mætum þeim í lokaleik milliriðlakeppninnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×