Skoðun

Skólabyrjun

Ákveðinn sjarmi er alltaf yfir skólabyrjun á hverju hausti. Börnin fara af stað að morgni dags með tösku á baki, komast í sína rútínu, hitta félagana og fara yfir sumarið. Að mörgu er þó að hyggja til að allt fari rétt og örugglega fram. Umferðin er stór þáttur þar. Í raun skiptir ekki öllu hvort um byrjendur í skólagöngu er að ræða eða börn sem eru búin að vera lengur í skóla. Þau sem eldri eru taka oft meiri áhættu t.d. með því að stytta sér leið, sem er oftast ekki öruggasta leiðin.

Mikilvægt er að gefa sér tíma til að fara yfir öruggustu leiðina í skólann með barninu. Hún er yfirleitt leiðin þar sem sjaldnast er farið yfir götu. Ef barnið er byrjandi í skólanum er gott að ganga fyrstu dagana með því í skólann. Ef fara þarf yfir götu ítrekaðu við barnið að það noti gangbraut ef hún er til staðar, stoppi, líti vel til beggja hliða og hlusti áður en það fer yfir. Upplýsa þarf barnið um það að ekki sé víst að ökumaður sjái það þó svo að það hafi séð bílinn og að best sé að gera alltaf ráð fyrir því að ökumaður hafi ekki séð það. Benda þarf barninu á að ganga ekki yfir bílastæði skólans heldur meðfram því og að bílastæði sé ekki leikvöllur.

Gott er að kynna sér hvort skólinn er með reglur um hjólreiðar barna úr og í skóla. Ef barnið fer hjólandi tryggðu að barnið sé með hjálm og gangi vel um hann þegar það geymir hann í skólanum. Í allmörgum skólum eru skólarútur notaðar. Farðu yfir helstu öryggisatriði m.a. að barnið standi ekki of nærri rútunni þegar hún kemur, fari í röð en troðist ekki og spenni beltin.

Ef foreldrar aka barninu í skólann þá er barnið öruggast í aftursætinu fram að 12 ára aldri. Þau sem ekki hafa náð 36 kg þyngd eiga að vera í sérstökum öryggisbúnaði umfram bílbelti eins og sessu, með eða án baks. Þegar barnið fer úr bílnum er alltaf öruggast að barnið fari út gangstéttarmegin, en ekki umferðarmegin.

Barn með endurskinsmerki sést fimm sinnum fyrr heldur en barn sem ekki er með endurskinsmerki. Tryggðu að barnið þitt sjáist í umferðinni þegar rökkva tekur.

Sem ökumaður virtu hraðatakmarkanir í kringum skóla, sýndu varkárni, vertu með hreinar rúður og stoppaðu fyrir gangandi vegfarendum. Mundu jafnframt að þú ert fyrirmynd barna í umferðinni.






Skoðun

Sjá meira


×