Erlent

Óþarfa aflimanir í stórum stíl

Óli Tynes skrifar
Hundruð þúsunda Haítí búa þurftu læknishjálp.
Hundruð þúsunda Haítí búa þurftu læknishjálp. Mynd/AP

Sænskur skurðlæknir sem er nýkominn heim frá Haítí segir að heilbrigðishjálp sem veitt var eftir jarðskjálftann mikla hafi verið  stórgölluð. Meðal annars sé fólk aflimað í stórum stíl að óþörfu.

Andreas Wladis segir í samtali við sænska blaðið SVD að Haítí hafi leitt í ljós mikla þörf fyrir betri samhæfingu við læknishjálp.

Hann hafi séð að sjálfstætt starfandi læknar sem komu til Haítís hafi fengið frítt spil og margar aðgerðir þeirra og ákvarðanir hafi verið vafasamar.

Wladis nefnir sem dæmi að hann hafi fengið 27 ára gamla þriggja barna móður sem hafði gengist undir aðgerð á hné.

Hnéð hafi gróið vitlaust saman eftir að það var neglt. Þegar hann hafi lyft sáraumbúðunum af hafi komið í ljós að drep var hlaupið í það.

Ekki hafi verið um annað að ræða en taka fótinn af. Þessi kona hefði ekkert þurft annað en gips. Það hefði bjargað fætinum.

Wladis segir tímabært að Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða heilbrigðisstofnunin kalli saman hjálparstofnanir eins og Alþjóða rauða krossinn og Lækna án landamæra til þess að setja reglur um og samræma aðgerðir eftir miklar náttúruhamfarir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×