Innlent

Borgarráð stofnar menningarsjóð tengdan friðarsúlunni

MYND/Valur Hrafn

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að stofna Menningarsjóðinn Imagine Peace - Reykjavík. Sjóðurinn er stofnaður með það að markmiði að styðja við og styrkja menningarstarf sem endurspeglar á einhvern hátt þau gildi sem IMAGINE PEACE Friðarsúlan í Viðey byggir á.

Í sameiginlegri bókun borgarráðs segir að friður, menning og mannréttindi í anda John Lennon og Yoko Ono sé leiðarljós sjóðsins en markmið hans er að styðja við og styrkja menningarverkefni tengd börnum, ungmennum, grænum gildum og hreinni orku og verkefnum sem stuðla að eflingu mannréttinda og friðarstarfs.

„Borgarráð gleðst yfir þessu samstarfi borgarinnar og Yoko Ono og þakkar þeim sem unnið hafa að Imagine Peace - Reykjavík," segir ennfremur.

„Listakonan og friðarsinninn Yoko Ono stóð fyrir uppsetningu verksins IMAGINE PEACE ( FRIÐARSÚLUNNAR) í Viðey. Verkefnið var unnið með stuðningi Reykjavíkurborgar og var ljós Friðarsúlunnar tendrað með vígslu þann 9. október 2007," segir einnig og sagt að verkið hafi vakið heimsathygli og viðburðir því tengdir hafi árvisst lífgað upp á borgina og laðað hingað erlenda gesti.

„Á þeim tíma sem liðinn er hafa komið upp tilfelli þar sem ýmsir aðilar hafa viljað gefa út efni, framleiða minjagripi eða halda viðburði og gefa afrakstur eða hluta hans til einhvers tengt Friðarsúlunni. Með stofnun sjóðsins skapast nú farvegur fyrir stuðning við góð málefni," segir einnig, en verkefnin skulu vera í samræmi við hugmyndafræði IMAGINE PEACE, sem felst í því að hver einstaklingur hafi vald til að breyta heiminum og að örlaga byrjunarpunkturinn sé sá að ,,Ímynda sér að allt fólk búi við frið".

66° Norður hefur framleitt sérstaka boli og plaköt í tengslum við viðburðina í Reykjavík í ár og rennur meira en helmingur söluverðs í sjóðinn. Íslandspóstur, sem gaf út bókina um Friðarsúluna, og valdir söluaðilar, munu gefa 30% af söluandvirði bókarinnar í sjóðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×