Erlent

Obama í góðu formi en ætti að hætta að reykja

Obama er í góðu formi. Hér sést hann á brimbretti við strendur Hawaii.
Obama er í góðu formi. Hér sést hann á brimbretti við strendur Hawaii. Mynd/AFP
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, er við hestaheilsu en ætti að hætta að reykja og tyggja þess í stað nikótíntyggjó. Þetta er skoðun læknis á Bethesda hersjúkrahúsinu í Maryland sem kannar reglulega heilsufar forsetans.

Obama fær sér nefnilega einn og einn líkkistunagla. Forsetinn hefur sagt að hann berjist við að drepa í síðustu sígarettunni en um leið viðurkennt að það sé ekki auðveld barátta.

Læknirinn segir að Obama sé í afar góðu formi og geti vel sinnt embættisskyldum sínum. Hann vill þó að Obama snúi sér að nikótíntyggjói líkt og hann gerði í kosningabaráttunni fyrir tveimur árum.

Forsetinn hefur það fyrir reglu að reykja ekki fyrir framan fjölskyldu sína. Obama hefur sagt að forsetafrúin Michelle og dætur hans leggi hart að honum að hætta alfarið að reykja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×